Meðalhiti í Reykjavík var einni gráðu ofan meðallags seinni hluta 20. aldar í janúar. Mánuðurinn var sagður sérlega tvískiptur þar sem hitinn í fyrri hluta hans var langt yfir meðallagi um allt landið en seinni hlutinn var mun kaldari.
Í samantekt Veðurstofu Íslands á tíðarfari í janúar kemur fram að auk hlýindanna í byrjun mánaðar hafi verið snjólétt víðast hvar. Óvenjuhlýtt hafi verið fram til 12. janúar en þá tók við svalara veður, ekki síst síðustu sex daga mánaðarins.
Þrátt fyrir að meðalhitinn í Reykjavík hafi verið 0,5°C og einni gráðu yfir meðaltali áranna 1961 til 1990 var hann 0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -0,9°C, 1,3 gráðum yfir meðallagi seinni hluta 20. aldar en 0,8 stigum undir síðasta áratugs. Á Stykkishólmi var meðalhitinn 0,5°C og 0,8°C á Höfn í Hornafirði.
Meðalhitinn á landinu öllu var yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en undir meðallagi síðustu tíu ára. Mest var frávikið á Þingvöllum þar sem hitinn var 1,9 stigum undir meðallagi síðasta áratugsins en minnst á Keflavíkurflugvelli þar sem hitinn var við meðallagið.
Nýtt dægurhámarksmet var sett í janúar þegar 18,9 stig mældust á Dalatanga 9. janúar. Hæsti hiti sem mælst hefur í janúar var 19,6 stig á sama stað árið 2000. Mesta frost mældist -27,5°C á Möðrudal 27. janúar.
Úrkoma í Reykjavík var 35% umfram meðallag 1961 til 1990, alls 102,9 millímetrar. Á Akureyri var úrkoman 23% umfram meðallag, 67,9 millímetrar. Fimm fleiri úrkomudagar mældust í janúar en í meðalári í Reykjavík, alls átján. Aftur á móti var einum rigningardegi færra á Akureyri en í meðalári, alls tíu.
Þrettán alhvítir dagar voru í Reykjavík í janúar en það er einum degi færra en meðaltal 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítir dagar í meðaltali, alls tuttugu og tveir dagar.
Janúar blés heitu og köldu
Kjartan Kjartansson skrifar
