Innlent

Flokkur fólksins næði ekki fulltrúa inn á þing

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn á Alþingi samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn á Alþingi samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. Vísir/Vilhelm
Flokkur fólksins næði ekki fulltrúa inn á Alþingi ef gengið yrði til þingkosninga í dag en flokkurinn mælist með 3,7% fylgi í þjóðarpúlsi Gallups. Sósíalistaflokkur Íslands bætir aftur á móti við sig fylgi en 5,3% aðspurðra sögðust kjósa Sósíalistaflokkinn ef gengið yrði til kosninga í dag en þar með næði hann fulltrúa inn á Alþingi. RÚV greinir frá.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst en hún hefur samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups 49% stuðning aðspurðra. Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærstur með 23,4%.

Fylgi Framsóknarflokksins minnkar aftur á móti á milli kannanna og mælist nú með 8,8% fylgi. Vinstri hreyfingin – grænt framboð fengi 11,3% atkvæða ef gengið yrði til kosninga í dag.

Samfylkingin mælist næst stærsti flokkurinn á þingi með 19,1% fylgi.

Píratar, líkt og Sósíalistaflokkur Íslands, bætir við sig tveimur prósentustigum frá því síðast var mælt en Píratar eru samkvæmt könnuninni þriðji stærsti flokkurinn á Alþingi með 12,7% fylgi.

Viðreisn er með 9,1% fylgi samkvæmt þjóðarpúlsinum og Miðflokkurinn er með 6,5% fylgi.

Könnunin var gerð dagana 7.-31. janúar 2019 en heildarúrtaksstærð varð 4.241 og þátttökuhlutfall 54,4%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,9-1,9%. Einstaklingar í úrtaki voru valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×