Skoðun

Bjóðum út bílastæðin

Hildur Björnsdóttir skrifar
Reykjavík rekur sjö bílastæðahús í miðborginni. Reksturinn er ekki skyldubundið hlutverk sveitarfélagsins og færi mun betur í höndum einkaaðila – sem hafa almennt tilhneigingu til að tryggja aukna hagkvæmni og betri þjónustu en hið opinbera.

Síðustu ár hefur bílum fjölgað meira en fólki hérlendis. Ísland hefur nú eitt hæsta hlutfall heims af bílum miðað við höfðatölu. Í dag er stærri hluta borgarlands ráðstafað undir umferðarmannvirki – en smærri hluta undir fólk og húsnæði. Þetta er óheppileg þróun – enda pláss takmörkuð gæði í sífellt þéttara borgarumhverfi.

Það er hlutverk sveitarfélags að tryggja greiðar samgöngur með hagkvæma nýtingu borgarlands að leiðarljósi. Veita þarf borgarbúum frelsi og val um fjölbreytta ferðamáta. Styrkja þarf stöðu almenningssamgangna, gangandi og hjólandi. Betra jafnvægi má ná í borgarskipulagi og samgöngustraumum – fjölga þarf atvinnutækifærum austarlega og gera hverfi borgarinnar sjálfbær um verslun og þjónustu. Deilihagkerfið og tæknilausnir framtíðar geta einnig haft einhver áhrif.

Bílastæði verða sífellt veigameira viðfangsefni þeirra sem fást við borgarskipulag. Í samanburði við erlendar borgir finnst fordæmalaus fjöldi bílastæða í miðborg Reykjavíkur. Hlutfallslega eru fleiri stæði á hvert starf, auk þess sem gjaldið er talsvert lægra en erlendis. Miðborgarland er eitt það verðmætasta hérlendis. Þessum verðmætu gæðum borgarinnar er víða ráðstafað ótímabundið og gjaldfrjálst undir bifreiðar. Það er óæskileg meðferð verðmæta.

Umfangsmikil opinber umsvif, opinber afskipti og útdeiling gjaldfrjálsra gæða er vinstri pólitík. Lítil opinber umsvif, frelsi einstaklings til verðmætasköpunar án óhóflegra opinberra afskipta og sanngjörn gjaldtaka af þjónustuþegum er hægri pólitík. Ég aðhyllist þá síðarnefndu.

Á næsta borgarstjórnarfundi mun Sjálfstæðisflokkur leggja til rekstrarútboð á bílastæðahúsum borgarinnar. Við viljum draga úr opinberum umsvifum, treysta skyldubundna þjónustu en færa önnur verkefni í hendur einkaaðila. Þannig bætum við þjónustu og lífsgæði í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×