Innlent

Reykjanesbær fjölmennari en Akureyri

Sighvatur Jónsson skrifar
Reykjanesbær er fjölmennari en Akureyri samkvæmt nýjum tölum frá Þjóðskrá Íslands um búsetu fólks á Íslandi. Fólki hefur fækkað í þremur landshlutum af átta.

Akureyri hefur verið fjórða stærsta sveitarfélag landsins til margra ára. Reykjanesbær hefur sótt hart að Akureyri enda hefur fólksfjölgun verið mikil suður með sjó í tengslum við uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.

1. desember síðastliðinn var munurinn aðeins 18 íbúar. Síðan þá hefur Akureyringum fjölgað um 28. Íbúar í Reykjanesbæ eru hins vegar 86 fleiri nú en í desember síðastliðnum. Nú búa sem sagt 40 fleiri í Reykjanesbæ en á Akureyri.

Ekkert að fara á límingunum

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyjarbæjar, segir að norðanfólk sé „ekkert að fara á límingunum út af þessu.“ Hann segir sígandi lukku vera besta og bendir á að Akureyringum hafi fjölgað um rúm 22% frá aldamótum.

Guðmundur bendir á að baráttan um millilandaflug til Akureyrar snúist um að styrkja stoðirnar í atvinnulífi bæjarins.

Sjö fjölmennustu sveitarfélögin á Íslandi.Vísir/Gvendur
Reykjavík er efst á lista yfir fjölmennustu sveitarfélögin á Íslandi. Kópavogur er í öðru sæti, Hafnarfjörður í því þriðja, Reykjanesbær í fjórða og Akureyri er fimmta fjölmennasta sveitarfélag landsins.

Garðabær vermir sjötta sætið og Mosfellsbær það sjöunda.

Breyting á fólksfjölda eftir landshlutum.Vísir/Gvendur
Ef litið er til landshluta hefur íbúum fækkað lítillega á Vesturlandi og Vestfjörðum. Íbúafjöldi er óbreyttur á Norðurlandi vestra og lítilsháttar fjölgun hefur verið á Norðurlandi eystra.

Íbúum hefur fækkað aðeins á Austurlandi en fjölgað mest á Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×