Innlent

Framkvæmdum verði flýtt með fjármagni úr ríkissjóði

Sveinn Arnarsson skrifar
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Fréttablaðið/Eyþór
„Gagnrýni okkar gagnvart meirihlutanum lýtur að því að hafa tekið tveggja mánaða vinnu og kastað henni upp í loft í desember. Þau vildu endilega ræða hugmyndir þingmanna Sjálfstæðisflokksins um veggjöld en fylgja því svo í rauninni ekki eftir í sínu áliti,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og framsögumaður minnihlutans í umhverfis- og samgöngunefnd.

Minnihlutinn skilaði í gær nefndaráliti sínu um samgönguáætlun en undir það skrifa auk Helgu Völu þau Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn, og Björn Leví Gunnarsson, Pírötum.

Helga segir að áherslan á veggjöld hafi verið algert frumhlaup og mjög ótímabær umræða. Þó hafi út úr þessari vinnu fengist góður listi frá Vegagerðinni um þau verkefni sem nauðsynlegt sé að ráðast í strax af öryggisástæðum. „Við leggjum til að það verði farið í þessar framkvæmdir. Þeim verði flýtt en þær kostaðar úr ríkissjóði.“

Í nefndarálitinu segir að fjármagna mætti framkvæmdir með auðlindagjaldi, hækkun veiðigjalda, gjaldtöku á ferðamenn eða minni afgangi ríkissjóðs. Minnihlutinn leggur einnig áherslu á eflingu almenningssamgangna og meiri innspýtingu í vinnu við Borgarlínu.

Enn ríkir óvissa um formennsku í nefndinni en tillögu um að setja Miðflokksmanninn Bergþór Ólason af sem formann var vísað frá í síðustu viku. Helga Vala segir óvissu ríkja um störf nefndarinnar en í gærkvöld hafði reglulegur fundur sem haldinn er á þriðjudagsmorgnum enn ekki verði boðaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×