Innlent

Pólverjar frjósamari á Íslandi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Pólskar konur sem búsettar eru á Íslandi fæða nærri helmingi fleiri börn en þær sem búa í Póllandi. Nú fæðast um 500 pólsk börn hér árlega.

Pólverjum á Íslandi fækkaði verulega í hruninu þegar margir snéu aftur til Póllands. Frá 2012 hefur þeim fjölgað gríðarlega á ný og hafa aldrei verið fleiri að sögn pólska sendiherrans á Íslandi sem er sálfræðingur að mennt og hefur að undanförnu unnið að því að greina hópinn. Tölfræðin sýni að Pólverjar hér séu um tuttugu þúsund. „En inni í þessum tölum er auðvitað ekki Pólverjar sem eru með íslenskt vegabréf. Svo eru líka margir Pólverjar sem koma hingað í aðeins nokkra mánuði að vinna,“ segir Gerard  Pokrusznski, pólski sendiherrann á Íslandi en hann áætlar að Pólverjar hér séu á bilinu þrjátíu til fjörutíu þúsund.

Hann segir þróunina jákvæða, sérstaklega fyrir minni samfélög en ólíkt öðrum innflytjendahópum setja Pólverjar að í öllum landshlutum. „Til dæmis í Bolungarvík voru í 1.bekk í skólanum í vetur fimm íslensk börn og níu pólsk,“ segir Gerard.

Samkvæmt tölum sendiráðsins fæðast hér um fimm hundruð börn árlega. Pólskar konur á Íslandi fæða að meðaltali 2,62 börn en aðeins um 1,5 barn í Póllandi.

Gerard segir að ástæðurnar séu menningar og fjárhagslegar en lang flestir Pólverjar sem setjast hér að koma frá íhaldssömum héröðum í Austur-Pólland. „Þau hafa mjög íhaldsamt viðhorf til fjölskyldunnar og kirkjunnar þar og svo búa Pólverjar við mjög góðan efnahag hér,“ segir Gerard.

Hann segir að það setjist um þrjú hundruð Pólverjar að á Íslandi árlega og telur hann að þeim muni fjölga næstu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×