Körfubolti

Kvikindislegur söngur stuðningsmanna Indiana Pacers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Brandon Ingram.
LeBron James og Brandon Ingram. Getty/Steve Dykes
Mikið hefur verið skrifað um möguleg skipti Los Angeles Lakers á mörgum leikmönnum sínum og Anthony Davis, stjórstjörnu New Orleans Pelicans.

Nýjustu fréttirnar eru þó þær að Lakers hafi gefist upp enda búnir að hækka tilboð sitt nokkrum sinnum án árangurs.

Stuðningsmenn mótherja Los Angeles Lakers hafa aftur á móti nýtt sér þetta ástand til að reyna að komast inn í hausinn á leikmönnum Lakers.

Þeir hafa nýtt sér þá staðreynd að Lakers sé að búa til lið sem getur hjálpað LeBron James að vinna titilinn núna en sé ekki lengur að búa til lið fyrir framtíðina.

Margir ungir og efnilegir leikmenn eru í liði Los Angeles Lakers en þeir eiga líklega eftir nokkuð í land til að verða harðgerðir leikmenn tilbúnir í titilbaráttu.

LeBron James hefur það orð á sér að þvinga framkvæmdastjóra sinna liða til að safna að sér leikmönnum sem geta hjálpað James í titilbaráttu og það leit út fyrir það undanfarna daga að félagið sé tilbúið í að skipta frá sér efnilegustu leikmönnum sínum.

Brandon Ingram er einn þessara ungu leikmanna og hann þurfti á hlusta á kvikindislegan söng stuðningsmanna Indiana Pacers í nótt.

Þeir sungu um að LeBron James ætli að losa sig við hann með því að skipta Ingram til annars liðs. Það má sjá og heyra þetta hér fyrir neðan þegar Brandon Ingram var á vítalínunni.

Brandon Ingram skoraði 12 stig á 29 mínútum í leiknum.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×