Erlent

Trump hundsar beiðni þingsins um að upplýsa morðið á Khashoggi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jamal Khashoggi. Myndin er frá minningarathöfn um blaðamanninn.
Jamal Khashoggi. Myndin er frá minningarathöfn um blaðamanninn. Chris McGrath/Getty
Ríkisstjórn Donalds Trump mun ekki bregðast við beiðni Bandaríkjaþings um að skila frá sér skýrslu þar sem því er svarað hver ber ábyrgð á morðinu á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi. Hann var myrtur í sendiráði Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi í byrjun október á síðasta ári.

Stuttu eftir morðið á blaðamanninum samþykkti Bandaríkjaþing að krefja Trump og ríkisstjórn hans um skýrslu sem leiða ætti í ljós hver bæri ábyrgð á dauða Khashoggi.

Forsetinn hefur kosið að bregðast ekki við kröfu þingsins. Í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni segir að forsetinn „standi fastur á rétti sínum til að neita að bregðast við beiðnum þingnefnda sé það viðeigandi.“

Demókratar telja hins vegar að afstaða forsetans brjóti í bága við Magnitsky-lögin frá árinu 2012, sem gera forsetanum skylt að bregðast við tilmælum nefndarformönnum þingsins innan 120 daga frá því þær eru settar fram. Þegar þetta er skrifað eru 122 dagar síðan þingið lagði beiðnina fram.

Donald Trump og Mohammed bin Salman.Mark Wilson/Getty
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, skrifaði leiðtogum þingsins bréf þar sem kom fram að háttsettir einstaklingar innan sádiarabíska stjórnkerfisins verði beittir refsiaðgerðum vegna málsins, en þar kom ekki fram hver ríkisstjórnin teldi að bæri ábyrgð á morðinu.

Í kjölfar fregnanna af aðgerðarleysi Trump hafa margir öldungardeildarþingmenn gagnrýnt forsetann fyrir að vilja ekki fordæma krónprins Sádi-Arabíu, Mohemmad bin Salman, sem margir telja að hafi fyrirskipað morðið á Khashoggi. Meðal þeirra er CIA, leyniþjónusta Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×