Fréttablaðið hafði fyrirsögnina; Silfur í hárinu og brons um hálsinn enda flestir leikmenn með gelið Silver í hárinu sem þeir Björgvin Páll Gústavsson og Logi Geirsson settu á markað. Til marks um gleðina sem ríkti í hópnum var að allir voru með gelið í hárinu þegar þeir tóku við verðlaununum. „Meira að segja Guðmundur Þórður Guðmundsson [landsliðsþjálfari] „silfraði“ sig upp,“ sagði Aron Pálmarsson stoltur við Fréttablaðið eftir afhendinguna.
Fyrri hálfleikurinn var einfaldlega stórbrotinn. Pólverjar skoruðu aðeins þrjú mörk á fyrsta stundarfjórðungnum og var Ísland þá komið með 8-3 forystu. Varnarveggur íslenska liðsins var eins og ókleifur múr. Stórskyttum Pólverja var haldið undir 50 prósenta skotnýtingu og þeirra beittasta vopn, Karol Bielecki, tók eitt skot í öllum hálfleiknum. Það geigaði.
En svo kom hræðilegur kafli í upphafi síðari hálfleiks. Besti markvörður mótsins, Slawomir Szmal, fór á kostum og varði sjö af fyrstu níu skotum Íslands í hálfleiknum. Á þessum tíma var skotnýting Íslands komin niður í rúm fimmtán prósent – hún var 80 prósent hjá Póllandi. Á aðeins rúmum sjö mínútum skoruðu Pólverjar sex mörk í röð og minnkuðu muninn í tvö mörk.
Íslenska sóknin virtist ekkert ráða við varnarleik Pólverja sem var afar öflugur. Róbert Gunnarsson braut loksins ísinn eftir tólf mínútna leik í síðari hálfleik. Ísland náði að halda forystunni allt til leiksloka en það mátti nánast engu muna. Hreiðar Guðmundsson kom inn í íslenska markið á síðasta stundarfjórðungnum og varði sjö skot, hvert öðru glæsilegra.
Seiglan og baráttan í liðinu kristallaðist svo í atviki sem átti sér stað einni og hálfri mínútu fyrir leikslok. Pólverjar komust í hraðaupphlaup og gátu minnkað muninn í eitt mark. Þá kom Alexander Petersson og stal boltanum með því að dýfa sér fyrir framan pólska leikmanninn. Það var einstakt augnablik sem á eftir að lifa lengi, rétt eins og glæsilegur árangur íslenska landsliðsins.
Frakkar urðu Evrópumeistarar á mótinu með því að leggja Króata að velli 25-21.
