Tillögur starfshópsins eru í tíu liðum og fela meðal annars í sér að yfirvöld fái frekari valdheimildir á vinnumarkaði í sínu eftirliti, tekið verðir á kennitöluflakki á skilvirkan hátt. Að stjórnvöld fái frekari lagaheimildir til þvingunarúrræða, sett verði skylda til keðjuábyrgðar um opinber innkaup tryggð verði viðeigandi aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu, og að bætt verði verulega upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna.

Starfshópinn skipuðu fulltrúar frá fimm ráðuneytum, embætti Ríkislögreglustjóra, Ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitinu, Vinnumálastofnun, Alþýðusambandinu, Bandalagi háskólamanna, BSRB Sambandi íslenskra sveitarfélaga og samtökum atvinnulífsins undir forystu Jóns Sigurðssonar, sem segir áríðandi að hraða vinnu í ráðuneytum svo tillögur starfshópsins komi til framkvæmda.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambandsins fagnar tillögunum.

Helstu tillögur samstarfshópsins eru eftirfarandi:
- Brýnasta verkefnið er að taka á kennitöluflakki á skilvirkan hátt. Í tillögunum er m.a. heimild til að setja forsvarsmenn fyrirtækja í tímabundið bann við þátttöku í stjórnun félaga.
- Komið verði upp föstum samráðshópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem beri ábyrgð á sameiginlegri stefnumótun um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.
- Stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði geri með sér formlegt samkomulag um skipulegt samstarf gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.
- Útfært verði hvernig megi fyrirbyggja alvarleg og/eða ítrekuð brot gegn starfsmönnum með því að útvíkka refsiábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna.
- Stjórnvöldum verði veittar lagaheimildir til að taka á brotastarfsemi, m.a. með þvingunarúrræðum og stjórnvaldsviðurlögum.
- Sett verði skylda til keðjuábyrgðar í lög um opinber innkaup.
- Komið verði í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði undir formerkjum starfsnáms eða sjálfboðaliðastarfsemi.
- Kortlagðar verði með skipulegum hætti þær lagaheimildir sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa til að skiptast á gögnum og upplýsingum
- Tryggð verði viðeigandi aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu.
- Bætt verði verulega upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna.