Skoðun

Pure Icelandic sheep

Guðrún Vilmundardóttir skrifar
Þar sem ég gekk til vinnu í gærmorgun skrikaði mér fótur í hálkunni á leiðinni yfir Lækjargötu. Vinsamlegur ferðamaður forðaði mér frá falli.

Rifjaðist þá upp rúmlega tuttugu ára gamalt atvik, þegar enginn gangandi vegfarandi var á ferð. Yfirleitt nokkurs staðar. Minnir mig.

Ég átti gasalega fínt skósítt þungt ullarpils, loðfóðraðan plast-jakka með miklum boðungum – og hafði ég í tilefni kvöldsins fengið lánaðan forláta skinnhatt hjá ömmu, „pure Icelandic sheep,“ var bróderað innan í fóðrið. Í þessari múnderíngu arkaði ég af stað á vinafund.

Leið mín lá yfir gönguljósin á Hringbraut. Tugir bíla námu staðar og ég skundaði yfir, eini gangandi vegfarandinn í augsýn.

Þá rann ég í hálkunni. Kollsteyptist. Eins og í teiknimynd. Fætur upp í loft svo ullarpilsið hvolfdist yfir loðfóðraða plastjakkann en hrundi svo einhvern veginn aftur niður um mig miðja svo ég fékk giska mjúka lendingu, flötum beinum, með skósítt pilsið upp um mig og „pure Icelandic sheep“ ofan í augum. Ég sá ekki bofs. Ég hélt náttúrlega að þetta væri mitt síðasta.

Þegar ég rankaði við mér var allt svart svo ég gerði ráð fyrir að vera í yfirliði. Leið svo nokkur stund.

Fór ég þá að greina umhverfishljóð. Upp úr því hafði ég rænu á því að ýta pure Icelandic sheep frá augunum.

Þar sem ég áttaði mig á aðstæðum í skjannabirtu bílljósanna tók ég umsvifalaust þá einörðu ákvörðun að nú væri best að láta eins og ekkert hefði í skorist. Stóð upp, hristi niður um mig pilsið, lagaði hattinn og arkaði af stað.

Held ég fái mér brodda undir skóna. Og taki fram hattinn.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×