Innlent

Umferðaróhöpp og „kona í góðu ásigkomulagi“

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Það er vetrarlegt um að litast á landinu um þessar mundir.
Það er vetrarlegt um að litast á landinu um þessar mundir. Vísir/vilhelm
Nokkuð var um umferðaróhöpp í borginni eftir að snjókoman lét aftur á sér kræla í gærkvöldi. Einn ók útaf í miðbænum og er sá grunaður um ölvun, þá var tilkynnt um bílveltu á Reykjanesbraut í Garðabænum um klukkan hálfeitt í nótt.

Engin meiðsli urðu á fólki en bílinn þurfti að fjarlægja með kranabíl. Þá var bíl ekið á annan bíl í Hafnarfirði og stakk ökumaðurinn af. Hann náðist af lögreglu og var í annarlegu ástandi. Þá ók maður útaf í Breiðholti og sat fastur og reyndist sá einnig undir áhrifum. Þessu til viðbótar var nokkuð um að menn væru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum.

Rétt eftir klukkan ellefu var lögregla kölluð til í Grafarvogi. Þar hafði verið tilkynnt um aðila í annarlegu ástandi liggjandi í snjóskafli í hverfinu. Þegar lögregla kannaði málið reyndist aðilinn vera „kona í góðu ásigkomulagi,“ eins og það er orðað í skeyti lögreglu. Sagðist hún aðeins vera að slaka á í skaflinum og njóta snjókomunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×