Lífið

Hætti við Coachella eftir að skipuleggjendur neituðu að byggja hvelfingu

Sylvía Hall skrifar
West sagði skipuleggjendum að hann væri listamaður með ákveðna sýn og hann ætti ekki að eyða tíma sínum í að ræða ferðakamra.
West sagði skipuleggjendum að hann væri listamaður með ákveðna sýn og hann ætti ekki að eyða tíma sínum í að ræða ferðakamra. Vísir/Getty
Rapparinn Kanye West hætti við að koma fram á tónlistarhátíðinni Coachella eftir að skipuleggjendur hátíðarinnar sáu ekki fram á að geta byggt gríðarstóra hvelfingu fyrir rapparann. Hvelfingin sem rapparinn bað um var svo stór að þörf væri á að endurskipuleggja allt hátíðarsvæðið upp á nýtt.

West átti að koma fram á aðalsviði hátíðarinnar og stefndu tónleikahaldarar á að tilkynna komu rapparans á hátíðina þann 3. janúar. Tveimur dögum fyrir umrædda tilkynningu fór West fram á að gríðarstór hvelfing yrði byggð á miðju hátíðarsvæði þar sem hann kæmi fram. 

Skipuleggjendur hátíðarinnar tilkynntu West að hvelfingin væri ekki gerleg á fjórum mánuðum og henni myndu fylgja miklar breytingar sem hefðu áhrif á hátíðargesti, til að mynda þyrfti að fjarlæga fjölmörg klósett á svæðinu. 

Samkvæmt heimildum Hollywood Reporter tók rapparinn ekki vel í þessar útskýringar skipuleggjenda og sagði það vera á byrgð skipuleggjenda að finna út úr því vandamáli. Hann væri listamaður með ákveðna sýn og hann ætti ekki að eyða tíma sínum í að ræða ferðakamra. 

Hvelfingin sem um ræðir átti að rúma 125 þúsund manns þar sem sviðið væri staðsett fyrir miðju. Mikill tæknibúnaður fylgdi hugmynd rapparans og átti hönnunin að vera í höndum John McGuire sem hefur starfað sem sviðshönnuður hans. 

Samkvæmt heimildum Hollywood Reporter höfðu skipuleggjendur unnið að því að fá West á hátíðina í fleiri ár. Eftir forföll hans var söngkonan Ariana Grande fengin í hans stað og verður hún stærsta nafn hátíðarinnar í ár. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×