Innlent

Sveitarstjóri fundar með stjórn HSU vegna fækkunar sjúkraflutningamanna

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í lok síðasta árs að til stæði að fækka sjúkraflutningamönnum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands úr 27 í 23.
Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í lok síðasta árs að til stæði að fækka sjúkraflutningamönnum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands úr 27 í 23. Vísir/Vilhelm
Sveitarstjóri Rangárþings ytra hefur miklar áhyggjur af fækkun sjúkraflutningamanna á Suðurlandi. Hann vill fá skýringar á því hvort fækkunin sé nauðsynleg ráðstöfun. Sveitastjórnin mun funda með Heilbrigðisstofnun Suðurlands í fyrramálið.

Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í lok síðasta árs að til stæði að fækka sjúkraflutningamönnum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands úr 27 í 23. Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, hefur áhyggjur af fækkuninni og segir fjármuni tryggða fyrir sjúkraflutningum í Rangárþingi. Því hefur hann boðað stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til fundar á morgun en sveitastjórnin vill skýringar á fækkuninni.

„Samkvæmt upplýsingum frá þeim þingmönnum sem tóku þátt í því að tryggja fjármuni þá telja þeir að þetta sé fullfjármagnað. Þess vegna viljum við ræða við stjórn HSU, komast að því hvort þetta sé nauðsynleg ráðstöfun og fá skýringar á henni. Við höfum áhyggjur af fækkuninni þar sem hér er þung umferð. Hér hefur ferðamennska aukist gríðarlega á síðustu árum og því viljum við, bæði fyrir íbúa og þá sem eru hér gestir, hafa trygga sjúkraflutninga. Það er auðvitað alltaf erfitt að ná endum saman og maður hefur skilning á því en við teljum að þetta sé fullfjármagnað,“ segir Ágúst Sigurðsson, sveitastjói Rangárþings ytra.

Þá hefur hann einnig áhyggjur af fyrirkomulagi vakta í ljósi þungrar umferðar á svæðinu.

„Það er gert ráð fyrir því að þarna verði bakvaktir í staðin fyrir staðbundnar vaktir á nóttunni. Það er auðvitað lausn sem menn þekkja en þá er um að ræða fólk sem er ekki í sjúkraflutningum að öllu jöfnu og hefur því ekki sömu þjálfun,“ sagði Ágúst.


Tengdar fréttir

Yfirlýsing vegna pistils forstjóra HSu

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofunnar Suðurlands, segir í yfirlýsingu á vef stofnunarinnar í gærkvöldi að fyrirsögn á frétt Vísis um fækkun sjúkraflutningamanna á Suðurlandi sé villandi og ósönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×