Körfubolti

Myrtu foreldra sína og fundust óvænt á körfuboltaspjaldi 29 árum síðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Körfuboltaspjaldið með Mark Jackson og Menendez bræðrunum.
Körfuboltaspjaldið með Mark Jackson og Menendez bræðrunum. Mynd/Twitter/@JohnJohnPhenom
Menendez bræðurnir komust aftur í fréttirnar á dögunum 29 árum eftir að þeir myrtu foreldra sína til að komast yfir peningana þeirra.

Bræðurnir komust aftur í sviðsljósið eftir að mynd af þeim fannst á körfuboltaspjaldi frá tímabilinu 1990-91 en þar voru þeir að lifa ljúfa lífinu á fremsta bekk á NBA-leik. Nokkrum vikum áður höfðu þeir myrt foreldra sína.

Bræðurnir heita Lyle og Erik Menendez og eru fæddir árin 1968 og 1970. Þeir myrtu foreldra sína á heimili þeirra í Kaliforníu 20. ágúst 1989. Þeir hringdu síðan í lögregluna og sögðu að einhver annar hefði myrt foreldra þeirra.

Á næstu mánuðum lifðu þeir ljúfa lífinu og eyddu peningum foreldra sinna. Þar á meðal í miða á fremsta bekk á NBA-leikjum.

Það komst ekki upp um morðin fyrr en að yngri bróðirinn sagði sálfræðingi sínum frá hvað þeir höfðu gert. Þá fór í gang atburðarrás sem endaði með að þeir voru handteknir og seinna dæmdir í lífstíðarfangelsi.





Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en síðan liðu næstum því þrír áratugir og á meðan dúsuðu bræðurnir í fangelsi. Þeir voru hins vegar aðskildir og hittust ekki aftur fyrr en í febrúar 2018 þegar annar bróðurinn var fluttur í fangelsi hins.

Nokkrum mánuðum síðar, nánar tilgetið í ágúst 2018, var áhugasamur maður að nafni Stephen Zerance að rannsaka betur mál bræðranna og það hvernig þeim tókst að eyða 700 þúsund dollurum á aðeins nokkrum mánuðum eftir morðin. 700 þúsund dollarar eru 85 milljónir íslenskra króna í dag.

Ben Collins, blaðamaður á Slam blaðinu, fann umræddan Stephen Zerance og forvitnaðist meira um málið.

„Ég og vinur minn sem hefur mikinn áhuga á glæpum, vissum að þeir fór á mikið kaupæði eftir að þeir fengu tryggingapeningana í kjölfar dauða foreldranna. Þeir keyptu fullt af hlutum, eins og tennistíma, Rolex-úr, föt, fyrirtæki, veitingastaði og bíla,“ sagði Stephen Zerance en bætti svo við:

„Svo tókum við eftir því að þeir höfðu keypt sæti á fremsta bekk á leik með Knicks í Madison Square Garden,“ sagði Zerance og þeir félagar fóru að leita að myndum af þeim í myndabönkum eins og Getty.

„Þegar við fundum ekkert á Getty þá kviknaði allt í einu sinni ljós hjá mér. Það er svo mikið til af gömlum körfuboltaspjöldum á eBay,“ sagði Stephen Zerance.

Stephen Zerance leitaði uppi körfuboltaspjöld frá 1989-90 og 1990-91 tímabilunum og endaði á því að finna körfuboltaspjaldið með Mark Jackson.





Mark Jackson var þá leikstjórnandi New York Knicks liðsins en hann þjálfaði seinna Golden State Warriors liðið á undan Steve Kerr og hefur síðustu ár verið mikið í að lýsa NBA-leikjum fyrir ESPN.

Það þarf ekki að spyrja að því að eftir uppgötvun Stephen Zerance þá margfaldaðist verðgildi þessa körfuboltaspjalds. Það fór úr því að vera 20 dollara virði í að seljast fyrir 1500 dollara í topp ásigkomulagi.

Það má lesa meira um þetta með því að smella hér.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×