Erlent

Ætla að byggja upp eldflaugavarnir í geimnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump í Pentagon í dag.
Donald Trump í Pentagon í dag. AP/Evan Vucci
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hét því í dag að Bandaríkin myndu þróa eldflaugavarnarkerfi í geimnum. Þetta sagði Trump í ræðu í höfuðstöðvum herafla Bandaríkjanna, Pentagon, í dag og sagði hann að kerfið myndi finna og granda öllum eldflaugum sem skotið væri að Bandaríkjunum, hvenær sem er og hvar sem er.

Tilefni ræðu Trump var sérstök úttekt hersins á eldflaugavörnum Bandaríkjanna og í skýrslu sem fylgdi úttektinni segir að einstök ógn stafi af Norður-Kóreu, jafnvel þó Trump sjálfur hafi lýst því yfir í fyrra að engin ógn stafaði lengur af einræðisríkinu.

Trump nefndi Rússland, Kína og Norður-Kóreu ekki í ræðu sinni en Pat Shanahan, starfandi varnarmálaráðherra, hélt einnig ræðu og sagði þau ríki vinna hörðum höndum að því að þróa eldflaugar sem erfiðara væri að sjá, fylgjast með og granda.

Sem dæmi má nefna að Vladimir Pútín, forseti Rússlands, opinberaði nýverið eldflaugar sem hann segir ómögulegt að granda eftir að henni hafi verið skotið á loft. Ein þeirra getur flogið á um tuttuguföldum hljóðhraða og tekið skarpar beygjur til að leika á eldflaugavarnir.

Kínverjar hafa einnig verið að vinna að þróun slíkra eldflauga.

Sjá einnig: Drekinn að ná í stélið á erninum



AP fréttaveitan segir að um sé að ræða áætlun sem gengur út á að koma skynjurum fyrir í geimnum svo hægt verði að finna eldflaugar um leið og þeim er skotið á loft. Einnig stendur til að kanna möguleikann á því að koma tólum fyrir á braut um jörðu sem grandað geta eldflaugum, þegar skynjararnir eru búnir að finna þær.



Samkvæmt Defense One verður meðal annars skoðað hvort hægt verði að granda eldflaugum með leysigeislum úr geimnum.



AP vísar í orð hershöfðingjans Robert Ashley, þegar hann ræddi við þingmenn í fyrra, en hann sagði að þróun hljóðfrárra eldflauga myndi gerbreyta hernaði á komandi árum. Mögulegt yrði að gera árásir á skotmörk með minni fyrirvara, yfir lengri vegalengdir og með stærri sprengjum en áður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×