„Hún er bara eins og einn af nemendum skólans. Við misjafnan fögnuð. Hún læðir sér inn í kennslustofur og situr bara eða liggur við hliðina á kennaranum sem er að kenna. Hún gengur til dæmis bara inn um þessar hringdyr eins og ekkert sé. Hringar sig í stólum hjá hinum og þessum og bíður eftir að einhver gefi henni að borða," segir Laufey Sigurðardóttir, rekstrarstjóri fasteigna Háskóla Íslands.

Þrátt fyrir að Rósalind veki kátínu hjá mörgum eru ekki allir sáttir. „Hér eru nemendur og ýmsir sem eru með ofnæmi og kvarta. Og hafa ekki skilning fyrir því að kötturinn sé inni. Kötturinn á sér náttúrulega heimili en þetta eru dýr sem fara sínar leiðir og það er ekkert hægt að binda köttinn heima, svona útikött," segir Laufey.

„Það er í rauninni bara að ná henni og koma henni út fyrir en stundum er hún sneggri en við. Ég hef það stundum á tilfinningunni að hún sé farin að þekkja mann, af því hún hleypur bara þegar sér mann," segir Laufey glettin.
Er Rósalind svona námsfús köttur?
„Það virðist allavega vera. Hún hefur mikinn áhuga á því að vera hér," segir Laufey.
