Erlent

Sex farþegar látnir í lestarslysinu á Stórabeltisbrúnni

Kjartan Kjartansson skrifar
Erfitt hefur reynst fyrir björgunarlið að komast að lestinni á Stórabeltisbrúnni í morgun.
Erfitt hefur reynst fyrir björgunarlið að komast að lestinni á Stórabeltisbrúnni í morgun. Vísir/Getty
Sex eru sagðir látnir og sextán slasaðir eftir lestarslys á Stórabeltisbrúnni sem tengir dönsku eyjarnar Sjáland og Fjón í morgun. Mikið óveður gerir nú í Danmörku og víðar á Norðurlöndunum.

Lokað hefur verið fyrir umferð um Stórabeltisbrúna og ekki liggur fyrir hvenær hún opnar aftur, að sögn danska ríkisútvarpsins. Slysið er sagt hafa átt sér stað þegar hluti af þaki flutningalestar rifnaði af og skall á hraðlest þegar þær mættust á neðri hluta brúarinnar um klukkan hálf átta í morgun. Berlingske segir að allir þeir sem létust hafi verið farþegar og hefur eftir DSB, rekstrarfyrirtæki lestanna.

Alls var 131 farþegi og þrír starfsmenn um borð í hraðlestinni. Flutningalestin flutti bjór fyrir Carlsberg-ölgerðina. Lokað hafði verið fyrir bílaumferð um brúna vegna veðurs frá því í nótt.

„Það heyrðist hvellur og svo byrjuðu rúðurnar að springa yfir höfðinu á okkur. Við flugum niður á gólfið og lestin stöðvaðist svo,“ segir Heidi Langberg Zumbusch, einn farþeganna um borð, við danska ríkisútvarpið.

Reuters-fréttastofan segir að óveður hafi torveldað björgunarstarf og erfitt sé að komast að lestinni. Farþegalestin var á leiðinni frá Óðinsvéum til Kaupmannahafnar.

Fjöldahjálparmiðstöð hefur verið komið upp í íþróttahöll í borginni Nyborg á Fjóni.

Fréttin verður uppfærð.

Hliðin á flutningalestinni virðist hafa rifnað af og brakið rekist á farþegalestina.Vísir/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×