Sjúkraflutningum á Suðurlandi fjölgaði um tæplega tvö hundruð á árinu 2018 frá árinu áður. En aukningin nemur rúmum 5%. Starfsstöðvar sjúkraflutningamanna eru fimm sem reknar eru frá Heilbrigðisstofnuninni Selfossi. Starfssvæðið er víðfeðmasta svæði landsins eða um 30.000 ferkílómetrar frá Hellisheiði í vestri og austur að Höfn í Hornafirði. Innan þess svæðis eru vinsælustu ferðamannastaðir landsins og á svæðinu er stærsta sumarhúsabyggð landsins.


„Breytingin er fólgin í því að 1. febrúar að þá ætlum við á nóttunni, frá klukkan sjö á kvöldin til klukkan sjö á morgnanna setja inn bakvaktir í stað staðbundinna vakta í Rangárþingi,“ sagði Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofunnar Suðurlands í viðtali sem tekið var við hana 30. desember síðastliðinn.

Sjúkraflutningamenn í Rangárþingi hafa þurft að aðstoða samstarfsmenn sína allt austur til Kirkjubæjarklausturs vegna alvarlegra slysa og kollegar þeirra reiða sig á viðbragð starfstöðvarinnar sem er í miðju umdæminu.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi tjáði sig um málið á samfélagsmiðlum fyrir áramótin en í pistli sínum sagði hann; „Sjúkraflutningar í Rangárþingi fengu fulla fjármögnun á fjárlögum 2018 og fá áfram til að vera með sólarhringsvakt á Hvolsvelli vegna aukinna verkefna. Því eru þessar ráðstafanir hjá HSU alveg óskiljanlegar.“