Skoðun

Á rúmu ári – Verk Vinstri grænna í ríkisstjórn

Steinar Harðarson skrifar
Fyrsta heila almanaksár ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er nú að baki. Þá er góð ástæða til að fara yfir verk stjórnarinnar og meta árangurinn. Þegar við Vinstri græn ákváðum í lok 2017 að taka þátt í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki mæltist það misjafnlega fyrir, bæði meðal okkar félaga og þó kannski ekki síst meðal annarra flokka sem telja sig talsmenn félagshyggju. Við fáum stundum spurninguna: Hvert er erindi VG?

Við, Vinstri græn, vitum vel svarið við því. Náttúruvernd, kvenfrelsi, jafnrétti, öflug samfélagsþjónusta, framsækin menntastefna, sjálfstæð utanríkisstefna, friðarstefna, félagsleg alþjóðahyggja eru helstu áherslur okkar. Það eru ýmsar leiðir færar til að koma stefnumálum á framfæri og í framkvæmd, hafa áhrif á þróun samfélagsins. Það er m.a. hægt með öflugum málflutningi í samfélaginu, með öflugri stjórnarandstöðu á þingi, með þátttöku í ríkisstjórn.

Þegar VG fyrir nær 20 árum hóf af alvöru umræðu um umhverfismál var reynt að gera okkur hlægileg, VG var sagður flokkur sérvitringa sem vildi bara tína fjallagrös. Nú er áhersla á náttúruvernd skrifuð í stefnu allra flokka. Svipuð þróun hefur orðið í kvenfrelsismálum, en þar hefur VG jafnan dregið þyngsta hlassið. Þegar við mynduðum núverandi ríkisstjórn höfðu margir miklar væntingar um betra samfélag, meiri jöfnuð. Með þessari ríkisstjórn er að því stefnt. Og hvað hefur áunnist? Nokkur atriði:

  • Frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna hækkað úr 25.000 krónum í 100.000. Eitt fyrsta verk stjórnarinnar.
  • Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækkaðar úr 520.000 í 600.000 þann 1. janúar sl.
  • Engin komugjöld verða innheimt af öryrkjum og öldruðum í heilsugæslu og hjá heimilislæknum frá 1. janúar 2019. Gjaldtöku fyrir vitjanir lækna til aldraðra og öryrkja hætt.
  • Stofnstyrkir til byggingar félagslegs leiguhúsnæðis hækka um 800 milljónir á þessu ári og eftir það er gert ráð fyrir stofnstyrkjum til bygginga allt að 300 félagslegra leiguíbúða árlega.
  • Aukin fjárframlög til umhverfismála um 35% frá því að ríkisstjórnin tók við í fjárlögum 2018 og fjármálaáætlun 2019-2023.
  • Verulega aukin fjárframlög til reksturs og fjárfestinga í heilbrigðismálum, eða um 11% milli fjárlaga 2017 og 2018 og um önnur 19% á tímabili fjármálaáætlunar.
  • Uppbygging innviða á ferðamannastöðum með áherslu á friðlýst svæði. Í heildina verður 2,1 milljarði varið í hana á næstu þremur árum.
  • Hækkað kolefnisgjald um 50% og boðuð frekari hækkun um 20% á næstu árum.
  • Atvinnuleysisbætur hafa hækkað í 90% af dagvinnutryggingu, úr 227.417 kr. í 270.000 kr. á mánuði.
  • Fjármagnstekjuskattur hækkaður úr 20 í 22%. Stefnt að frekari hækkun.
  • Breyttar úthlutunarreglur LÍN. Flóttafólk hefur nú aðgang að framfærslulánum í fyrsta sinn.
  • Verulega aukið fjármagn til samgöngumála, bæði í fjárlögum yfirstandandi árs og í fjármálaáætlun. Fjárfest verður í uppbyggingu samgönguinnviða fyrir 124 milljarða á tímabili áætlunarinnar.
  • Stórátak boðað í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Rýmum verður fjölgað um 550 á næstu árum og aðbúnaður bættur við önnur 240.
Þetta er bara hluti mála sem við höfum haft forgöngu um og hefðu tæplega orðið að veruleika ef við sætum ekki í þessari ríkisstjórn. Við eigum forsætisráðherra Íslands, verkstjóra og foringja ríkisstjórnarinnar, stjórnmálamann sem Íslendingar hafa á síðari tímum treyst langbest. Við eigum kraftmikinn heilbrigðisráðherra sem setur hagsmuni þjóðarinnar framar einkahagsmunum í heilbrigðisþjónustu og byggir upp hið opinbera heilbrigðiskerfi af festu og dugnaði. Og við eigum umhverfisráðherra sem lyft hefur umhverfisráðuneytinu á hærra plan og gert það að framsæknu, öflugu ráðuneyti.

Það er nauðsynlegt að landsmenn kynni sér þau málefni og þær aðgerðir sem VG hefur áorkað á því rúma ári sem ríkisstjórnin hefur starfað. Við getum svarað ómálefnalegri gagnrýni með skýrum rökum. Við erum stolt af okkar verkum og höldum ótrauð áfram. Gerum enn betur!




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×