Erlent

Refsiaðgerðir gegn Íran vegna áforma um launmorð í Evrópu

Kjartan Kjartansson skrifar
Anders Samuelsen, danski utanríkisráðherrann, tilkynnti um refsiaðgerðirnar í dag.
Anders Samuelsen, danski utanríkisráðherrann, tilkynnti um refsiaðgerðirnar í dag.
Evrópusambandið hefur samþykkt refsiaðgerðir gegn írönsku leyniþjónustunni vegna áforma hennar um launmorð í Evrópu, að sögn Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur. Hann er aðgerðirnar senda sterk skilaboð um að Evrópusambandið muni ekki samþykkja slíka hegðun í álfunni.

Aðgerðirnar beinast að deild íranska leyniþjónusturáðuneytisins og tveimur starfsmönnum hennar, aðstoðarráðherra og forstjóra leyniþjónustunnar, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Eignir þeirra í Evrópu verða frystar. Ákvörðun um aðgerðirnar var tekin á fundi evrópskra ráðherra í Brussel.

Dönsk stjórnvöld sögðu í fyrra að þau grunuðu írönsku leyniþjónstuna um að fremja launmorð í Danmörku. Frönsk stjórnvöld telja einnig engan vafa um að Íranir hafi staðið að misheppnuðu tilræði í París. Því hafa Íranir hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×