Innlent

Tónlistarmaðurinn saknar húsbíls síns sáran

Jakob Bjarnar skrifar
Julian Hewlett segir málið allt hið furðulegasta en húsbíllinn er stór og ekki svo auðvelt að fela hann.
Julian Hewlett segir málið allt hið furðulegasta en húsbíllinn er stór og ekki svo auðvelt að fela hann.
Julian Hewlett tónlistarmaður varð fyrir þeirri ósvinnu að húsbíl hans var stolið einhvern tíma á tímabilinu 23. desember til 2. janúar. Hann var þá staddur á Englandi, hvaðan hann kemur upphaflega en Julian er mikils metinn tónlistarmaður á Íslandi hvar hann hefur starfað í rúma tvo áratugi, bæði sem kórstjóri og píanóleikari. Bíllinn stóð við BSÍ í Reykjavík.

Julian segist sakna bílsins mjög. Hann bjó í honum á tímabili og saknar nú persónulegra muna sem í bílnum voru meðal annars nótnablaða, þannig að þjófnaðurinn kemur afar illa við hann.

Hann segist, í samtali við Vísi, að lögreglan geri ekki mikið í málinu, hún segi mest lítið en hafi þó lýst eftir bílnum.

„Þetta er allt mjög furðulegt,“ segir Julian. „Bíllinn er svo stór nefnilega og erfitt að fela hann.“

Bíllinn, en hann má sjá á meðfylgjandi mynd, er Fiat með Elnagh-afturpart. Númerin eru PG 548, en hann er 2,6 metrar á hæð og 6 metra langur. Julian hvetur lesendur Vísis til að hafa augun hjá sér og gera lögreglu viðvart, verði þeir varir við bílinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×