Skoðun

Á misjöfnu þrífast börnin best

Guðrún Vilmundardóttir skrifar
Daginn er tekið að lengja, ég óska okkur öllum til hamingju með það. Fjörugustu mánuðirnir í bóka­útgáfunni eru að baki og tími til að hvílast og stilla strengi sína upp á nýtt.

Starf mitt felst að stórum hluta í því að lesa handrit og bækur en það er langt síðan ég komst að því að besta hvíldin frá lestri er hreint ekki að lesa ekki neitt, heldur einmitt að lesa eitthvað allt annað en maður er vanur að lesa. Enga hvíld vissi ég betri frá námsbókunum en að lesa skáldsögur.

Það er ekkert jafn dásamlegt og að gleyma sér í góðri bók sem hittir mann í hjartastað. Ég hef aldrei hikað að leggja frá mér bækur sem heilla mig ekki. Hef ekki verið af þeim skóla að það þurfi endilega að klára bók sem byrjað er á. Ekki frekar en maður þurfi endilega að eiga, um aldur og ævi, bækur sem manni áskotnast.­

En í friðsældinni yfir hátíðarnar ákvað ég að gera tilraun. Ég hef lokið við hverja einustu bók sem ég hef tekið upp. Þær eru orðnar nokkrar og einhverjar hefði ég lagt frá mér væri ég ekki yfirlýst tilraunadýr. En ég verð satt að segja að mæla með þessu. Það er eitthvað hressandi við það að sogast ekki endilega inn heldur standa á hliðarlínunni, og viti menn, það er alltaf eitthvað sem kemur skemmtilega á óvart og veitir nýja innsýn.

Þetta er nú mín jólakveðja og nýuppgötvað ráð til hvíldar og gleði.

Óska gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.




Skoðun

Sjá meira


×