Innlent

Meirihluti Íslendinga vill breyta reglum um sölu flugelda

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flugeldar hafa verið ómissandi hluti af áramótum margra.
Flugeldar hafa verið ómissandi hluti af áramótum margra. Fréttablaðið/ernir
Á bilinu 45-46 prósent Íslendinga vilja óbreytt fyrirkomulag á sölu flugelda. Tæplega 7 prósent vilja banna þá alfarið og tæplega 48% vilja hefta söluna að einhverju leyti.

Þetta má lesa úr svörum þeirra 817 manns sem svöruðu spurningum sem Maskína lagði fyrir fyrr í þessum mánuði.

Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna að karlar vilji frekar halda í óbreytt fyrirkomulag en konur. Hlutfall karla sem vilja núverandi sölufyrirkomulag er 53,3 prósent en 37,3 prósent kvenna. 

Þá eru konur hlynntari því að leyfa sölu eingöngu til flugeldasýninga (33,8 prósent) en karlar (22,6 prósent). Fólk á aldursbilinu 40-49 ára er líklegast til þess að vilja óbreytt fyrirkomulag á sölu flugelda.

Könnunin gefur jafnframt til kynna að Reykvíkingar séu ólíklegastir til að vilja óbreytt fyrirkomulag, eða á bilinu 35-36 prósent. Þeir eru einnig líklegastir til þess að vilja hefta sölu á flugeldum á einn eða annan hátt. Norðlendingar eru líklegastir til þess að vilja hafa óbreytt fyrirkomulag á sölu flugelda, eða um 60 prósent.

Þá er einnig töluverður munur á afstöðu fólks eftir menntun og stjórnmálaskoðunum. Þeir sem eru meira menntaðir eru hlynntari því að vilja breytt sölufyrirkomulag og kjósendur Pírata eru líklegastir til að vilja banna flugelda alfarið.

Skýrsluna í PDF-formi má nálgast með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Landsbjörg býður tré í stað flugelda

Björgunarsveitir hófu í dag að undirbúa sölustaðina fyrir stærstu fjáröflun ársins, eða sjálfa flugeldasöluna. Þeim sem ekki vilja sprengja verður boðið að kaupa tré sem verður gróðursett í áramótaskógi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×