Sport

Sara Björk er Íþróttamaður ársins 2018

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir er Íþróttamaður ársins
Sara Björk Gunnarsdóttir er Íþróttamaður ársins Vísir/esá

Knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir er íþróttamaður ársins 2018. Þetta er í fyrsta skipti sem Sara Björk hlýtur nafnbótina.

Kjörið var kunngjört á árlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í Hörpu í kvöld.

Sara Björk er lykilmaður í þýska liðinu Wolfsburg, einu besta félagsliði heims.

Á árinu sem er að líða varð Wolfsburg tvöfaldur meistari heima fyrir og komst í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Sara varð fyrsti Íslendingurinn til þess að spila í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor en meiddist í leiknum.

Sara skoraði 6 mörk í 9 leikjum fyrir Wolfsburg í Meistaradeildinni á síðasta tímabili og 11 mörk í öllum keppnum.

Sara hefur verið fyrirliði íslenska landsliðsins síðustu ár og fór fyrir íslenska liðinu sem var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í lokakeppni HM í fótbolta í fyrsta skipti í haust.

Sara hefur verið á topp tíu í kjörinu á íþróttamanni ársins sjö sinnum, oftar en nokkur kona í sögunni.

Breska blaðið The Guardian valdi Söru Björk 31. bestu fótboltakonu heims í lok árs.

Þetta er í 63. skipti sem Íþróttamaður ársins er útnefndur af Samtökum íþróttafréttamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×