Körfubolti

NASA vill sanna fyrir Curry að menn hafi komið til tunglsins

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
NBA meistarinn Curry trúir því ekki að menn hafi komið til tunglsins
NBA meistarinn Curry trúir því ekki að menn hafi komið til tunglsins vísir/getty
NASA hefur boðist til þess að sanna fyrir Stephen Curry að Bandaríkjamenn hafi lent á tunglinu árið 1969 eftir að stórstjarnan lét þau orð falla í hlaðvarpsupptöku að hann trúði því ekki að tunglendingin hafi átt sér stað.

„Við viljum endilega fá herra Curry í heimsókn að skoða tunglstofuna í Johnson Space Center í Houston, kannski hann kíki við næst þegar Warriors mæta Rockets,“ sagði talsmaður NASA við New York Times.

„Við erum með hundruði tunglsteina og stjórnstöð Apollo. Hann getur fengið að sjá með eigin augum hvað við gerðum fyrir 50 árum sem og allt það sem við erum að gera til þess að fara aftur til tunglsins á næstu árum, og í þetta skiptið til þess að vera þar áfram.“

Curry var gestur í hlaðvarpinu „Winging it“ og spurði „Höfum við komist til tunglsins? Ég held það ekki.“

Eftir leik Warriors á mánudagskvöld var Curry spurður út í ummælin.

„Ég hef fengið mjög áhugaverð viðbrögð frá fyrrum geimförum NASA sem ég ætla að ræða frekar við. Það mun eitthvað gott koma út úr þessu, það er alveg víst.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×