Lögregla handtók í nótt konu sem ráðist hafði að starfsmanni á hóteli í miðbænum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu á öðrum tímanum í nótt en konan hafði komið í afgreiðslu hótelsins í annarlegu ástandi. Búið var að vísa henni út sökum ástands. Þá réðst hún að starfsmanni og beit hann í fótinn þannig að blæddi. Konan var handtekinn og vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Á tíunda tímanum var maður í annarlegu ástandi handtekinn í miðbænum en hann var staddur í verslun og hótaði þar fólki. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands.
Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Grafarvogi. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar er grunaður um ölvun við akstur og var ekki með öryggisbeltið spennt. Engin meiðsl voru skráð.
Beit starfsmann í fótinn svo úr blæddi
Kristín Ólafsdóttir skrifar
