Viðskipti innlent

Ragnheiður nýr listrænn stjórnandi Arctic Arts Festival

Atli Ísleifsson skrifar
Ragnheiður Skúladóttir.
Ragnheiður Skúladóttir. Mynd/Arctic Arts Festival
Ragnheiður Skúladóttir hefur verið ráðin sem stjórnandi Listahátíðarinnar í Norður-Noregi, Arctic Arts Festival.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsvarsmönnum hátíðarinnar, en Ragnheiður hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Íslenska dansflokksins undanfarin ár og verið annar listrænna stjórnenda LÓKAL leiklistarhátíðar í Reykjavík.

„Ragnheiður Skúladóttir kom að skipulagningu viðburða á Arctic Arts Festival árin 2016 og 2017 (Arctic Arts Summit). Hún velur leiklistar- og dansviðburði á dagskrá hátíðarinnar 2019, mun taka til starfa í marsmánuði 2019 og vinna við hlið Mariu Utsi, núverandi stjórnanda, þar til hún tekur að fullu við starfi listræns stjórnanda í ágúst 2019,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Ragnheiði að hún hlakki til að hefja vinnu í Harstad. „Staðsetning hátíðarinnar finnst mér afar heillandi; ég hef unnið á norðurslóðum og kann vel að meta þá útsjónarsemi og hreinskiptni sem fylgir jafnan lífi og starfi fólks á þessum slóðum. Listahátíðin í Norður-Noregi hefur gengið í gegnum mikilvægar breytingar á liðnum árum – undir stjórn Mariu Utsi – og það er frábært tækifæri að mega taka við af henni og leiða hátíðina inn í spennandi tíma,“ segir Ragnheiður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×