Erlent

Gefið að sök að hafa mútað blaðamönnum til að fjalla um sig í jákvæðu ljósi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögregluyfirvöld í Ísrael fara fram á að forsætisráðherrahjónin Benjamin og Sara Netanyahu verði ákærð fyrir spillingu.
Lögregluyfirvöld í Ísrael fara fram á að forsætisráðherrahjónin Benjamin og Sara Netanyahu verði ákærð fyrir spillingu. vísir/ap
Ísraelsk lögregluyfirvöld hafa með rannsókn sinni fundið haldbærar sannanir fyrir því að Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels og Sara Netanyahu eiginkona hans hafi mútað fjarskiptafyrirtækinu Bezek Telecom Israel til að fjalla um sig í jákvæðu ljósi á fréttamiðlinum Walla sem er í eigu fyrirtækisins.

Lögregluyfirvöld mælast til þess að saksóknari taki upp málið og ákæri Benjamin Netanyahu fyrir mútur, fjársvik, umboðssvik og stórfellda spillingu. Eiginkonu hans, Söru Netanyahu er einnig gefið að sök að hafa reynt að hindra framgang réttvísinnar.

Í yfirlýsingu frá lögregluyfirvöldum í Ísrael kemur fram að lögregluna hafi lengi grunað að Netanyahu hafi á árunum 2015-2017 tekið stjórnvaldsákvarðanir í þágu ráðandi hluthafa í fjarskiptafyrirtækinu Bezek Telecom Israel, Shaul Elovitch.

Netanyahu var ráðherra fjarskiptamála á þessum árum auk þess að gegna embætti forsætisráðherra landsins.

Ísraelskir fjölmiðlar greina frá því í dag að í skiptum fyrir hagræðingu laga og reglugerða í þágu Elovitch hafi hann fyrirskipað blaða-og fréttamönnum á netmiðlinum Walla, sem er í eigu fyrirtæksins, að skrifa einungis fréttir og greinar sem sýni Netanyahu í jákvæðu ljósi.

Afskipti Netanyahu nánast daglegt brauð

Lögreglan segir þá einnig að hún hafi sannanir fyrir því að afskipti Netanyahu af fréttaflutningi hafi verið nánast daglegt brauð fyrir ritstjórn Walla og þá hafi fyrirskipanirnar verið afar óskammfeilnar.

Í yfirlýsingu frá lögregluyfirvöldum í Ísrael kemur fram að lögregla hafi einnig viðað að sér nægum gögnum til að Shaul Elovitch og eiginkona hans Irisi Elovich verði ákærð fyrir mútur og spillingu.

Þetta er þriðja spillingarmálið sem Netanyahu er viðriðinn en hann neitar alfarið sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×