Erlent

Dæmir Arnault fyrir aðra nauðgun og þyngir refsingu

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-Claude Arnault hefur verið áberandi í sænsku menningarlífi síðustu árin.
Jean-Claude Arnault hefur verið áberandi í sænsku menningarlífi síðustu árin. Vísir/EPA
Dómstóll í Svíþjóð þyngdi í dag dóm yfir hinum 72 ára Jean-Claude Arnault í tveggja og hálfs árs fyrir fangelsi fyrir tvær nauðganir árið 2011.

Arnault hefur verið þekktur sem Kulturprofilen í Svíþjóð og hefur mál hans teygt anga sína inn í Sænsku Akademíuna og leitt til afsagnar sjö meðlima hennar síðan í vor. 

Arnault hafði áður verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir eina nauðgun, en var sýknaður af annarri. Dómnum var í kjölfarið áfrýjað.

Dómur Hofréttar í Stokkhólmi var kveðinn upp í dag þar sem Arnault var dæmdur fyrir tvö tilfelli nauðgunar. Dómstóllinn hækkaði einnig skaðabætur, úr 115 þúsund sænskra króna í 215 þúsund krónur, eða um 2,9 milljónir íslenskra króna. 

Verjandi Arnault segir við sænska fjölmiðla að dómur hofréttar verði áfrýjað til æðra dómstigs.

Átján konur stigu fram

Arnault neitaði sök í málinu og var úrskurðaður í gæsluvarðhald í september þar sem talið var að hann gæti flúið land áður en dómur myndi féll. Grunsemdir um brot Arnault rötuðu fyrst í fjölmiðla í nóvember 2017 í kjölfar rannsóknar dagblaðsins Dagens Nyheter þar sem átján konur greindu frá því að hafa verið áreittar eða nauðgað af honum.

Arnault er giftur fyrrverandi meðlimi Sænsku Akademíunnar og hefur sjálfur verið áberandi í sænsku menningarlífi síðustu ár. Mál Arnault leiddi til þess að í maí síðastliðinn var greint frá því að bókmenntaverðlaun Nóbels yrðu ekki afhent árið 2018.


Tengdar fréttir

Arnault dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Jean-Claude Arnault hefur verið þekktur sem Kulturprofilen í Svíþjóð og hefur mál hans teygt anga sína inn í Sænsku Akademíuna og leitt til afsagnar sjö meðlima hennar síðan í apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×