Erlent

Draga úr leit í Kaliforníu

Samúel Karl Ólason skrifar
AP/Noah Berger
Yfirvöld Kaliforníu eru að draga úr leitarstarfi í norðurhluta ríkisins eftir eldana sem loguðu þar í síðasta mánuði. Ellefu er enn saknað en fjöldi þeirra hefur verið á miklu reiki og var eitt sinn tæplega 1.300 og um tíma var óttast að hundruð hefðu dáið vegna eldanna. Nú er vitað að minnst 85 dóu og tæplega fjórtán þúsund heimili brunnu. Allt í allt brunnu 18.804 byggingar.

Búið er að finna rúmlega 3.100 manns sem höfðu á einhverjum tímapunkti verið tilkynnt sem týnd.



Nú er verið að hleypa íbúum Paradise aftur inn á svæðið hægt og rólega en eðli málsins samkvæmt eru margir þeirra heimilislausir og ljóst er að það mun taka einhver ár að byggja húsin á nýjan leik. Yfirvöld Buttesýslu, þar sem Paradise er, hafa lýst yfir neyðarástandi og hefur ástandið í neyðarskýlum farið versnandi.

Búið er að opna skóla aftur á svæðinu og á mánudaginn fóru börn í skólann í fyrsta sinn í nærri því mánuð. Foreldrar sem AP fréttaveitan ræddi við sögðu mikilvægt að koma jafnvægi á líf barnanna og sömuleiðis að gefa þeim frí frá foreldrum sínum.



Tryggingafyrirtækið Merced Property & Casualty Co. hefur farið á hausinn vegna aldanna, sem eru meðal þeirra verstu sem hafa brunnið í Kaliforníu. Samkvæmt CNN eru eignir félagsins 23 milljónir dala en það þarf að greiða út um 64 milljónir dala og þá bara vegna skaðans í Paradise.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×