Innlent

Áfram í varðhaldi vegna árásar á Akureyri

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn lagði til atlögu með hnífsblaði sem falið var í hnefa mannsins.
Maðurinn lagði til atlögu með hnífsblaði sem falið var í hnefa mannsins. Vísir/Vilhelm
Landsréttur hefur staðfest áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um tilraun til manndráps eftir að hafa stungið annan karlmann með hnífsblaði í krepptum hnefa á Akureyri í byrjun nóvember.

Árásin átti sér stað síðdegis þann 3. nóvember fyrir utan útibúa Arion banka í miðbæ Akureyrar.Maðurinn var nokkru síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald til 30. nóvember. Héraðsdómur Norðurlands eystra úrskurðaði manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald til 17. desember næstkomandi en úrskurðurinn var kærður til Landsréttar.

Í bráðabirgðaáverkavottorði fórnarlambsins segir að fórnarlambið hafi meðal annars hlotið djúpan skurð neðan við vinstra kjálkabarð, í gegnum munnvatnskirtil í nálægð við bláæð auk þess sem það hlaut einnig djúpan skurð á vinstra gagnauga, auk átta annara skurða á efri hluta líkamans.

Við húsleit á heimili árásarmannsinns fannst blóðugur hnífur sem talið er að hafi verið beitt í árásinni. Er hnífurinn með um fjögurra sentimetra löngu blaði, ekki með venjulegu skafti heldur með eins konar handfangi.

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms og mun maðurinn því sitja í gæsluvarðhaldi til 17. desember.Í úrskurðinum er vísað til upptöku úr öryggismyndavél þar sem sjáist að árásarmaðurinn hafi haft hnífsblað í krepptum hnefa sínum og blaðið standi út á milli fingra hans. Maðurinn hafi svo slegið til fórnarlambsins með þeim afleiðingum að hann var með tíu stungusár á líkama eftir árásina en á upptökunum megi sjá að fórnarlambið verði blóðugt.




Tengdar fréttir

Lagði til atlögu með hnífsblaði í krepptum hnefa

Maðurinn sem er í haldi lögreglunnar á Akureyri grunaður um tilraun til manndráps lagði til atlögu að fórnarlambinu með hnífsblaði í krepptum hnefa. Fórnarlambið hlaut alls tíu stungusár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×