Erlent

Talskona utanríkisráðuneytisins verður tilnefnd sem sendiherra hjá SÞ

Kjartan Kjartansson skrifar
Nauert var ráðin talskona utanríkisráðuneytisins í fyrra en fram að því hafði hún enga reynslu af opinberum störfum.
Nauert var ráðin talskona utanríkisráðuneytisins í fyrra en fram að því hafði hún enga reynslu af opinberum störfum. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti eru sagður ætla að tilnefna fyrrverandi þáttastjórnanda frá Fox News sem næsta sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún hafði enga reynslu af opinberum störfum til til hún var valin til að gegna stöðu talsmanns utanríkisráðuneytisins í fyrra.

Heather Nauert var fréttamaður og síðar þáttastjórnandi hjá Fox News, íhaldssömu sjónvarpsstöðinni sem er í uppáhaldi hjá forsetanum, frá 1996. Hún var meðal annars einn stjórnenda þáttarins „Fox and Friends“ sem Trump horfir reglulega á og vitnar í á Twitter.

Washington Post segir að Trump ætli sér að tilnefna hana til sendiherrastöðunnar. Þar myndi hún taka við af Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóra Suður-Karólínu, sem sagði af sér í byrjun október. Haley hafði heldur enga reynslu af utanríkismálum áður en hún var skipuð í embættið. Nauert er sögð hafa verið staðfastur verjandi Trump forseta, jafnvel á meðan Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra, átti í stormasömu sambandi við Hvíta húsið.

Öldungadeild Bandaríkjaþings þarf að staðfesta skipan sendiherra.

Nauert (t.v.) í fyrra starfinu sínu í þættinum Fox and Friends.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Nikki Haley segir upp

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, hefur sagt starfi sínu lausu. Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, er sagður hafa móttekið og samþykkt uppsögn hennar.

Ivanka Trump segist ekki taka við af Nikki Haley

Eftir tilkynningu Haley, sem fór fögrum orðum um Ivönku Trump og eiginmann hennar Jared Kushner, veltu stjórnmálasérfræðingar og samfélagsrýnendur fyrir sér hvort Trump hefði í hyggju að tilnefna dóttur sína í embætti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×