Innlent

Fangageymslur fullar eftir nóttina

Kjartan Kjartansson skrifar
Þegar fangageymslur á Hverfisgötu fylltust var byrjað að vista fólk í Hafnarfirði.
Þegar fangageymslur á Hverfisgötu fylltust var byrjað að vista fólk í Hafnarfirði. Fréttablaðið/Stefán
Þrír menn sem réðust á dyravörð á veitingahúsi í miðborg Reykjavíkur skömmu eftir miðnætti eru á meðal þeirra sem fylltu fangageymslur lögreglunnar á Hverfisgötu. Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að byrjað hafi verið að vista fólk á lögreglustöðinni í Hafnarfirði.

Dyravörðurinn er sagður hafa verið fluttur á slysadeild til aðhlynningar eftir atlögu þremenninganna sem tilkynnt var um þegar klukkan var ellefu mínútur gengin í eitt í nótt. Fyrr um kvöldið hafði verið tilkynnt um líkamsárás í hverfi 101. Þar var maður kýldur ítrekað í andlitið. Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.

Á fjórða tímanum í nótt var maðurinn handtekinn á veitingahúsi í Kópavogi. Hann er grunaður um líkamsárás og var hann látinn gista fangageymslu í nótt.

Um sama leyti var tilkynnt um líkamsárás og rán í Breiðholti. Fjögur voru handtekin og vistuð í fangageymslu en sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á slysadeild.

Þá var fjöldi ökumanna stöðvaður í gærkvöldi og nótt, grunaður um ölvunar- eða fíkniefnaakstur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×