Handbolti

Íslandsmeistararnir eiga á hættu að tapa sínum fjórða leik í röð í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyjamenn lyfta Íslandsmeistarabikarnum síðasta vor.
Eyjamenn lyfta Íslandsmeistarabikarnum síðasta vor. vísir/andri marinó
Það er liðin meira en mánuður síðan að Eyjamenn fögnuðu síðast sigri í Olís deild karla í handbolta en þeir fá tækifæri til að bæta úr því í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld.

Eyjamenn ráðast hinsvegar ekki á garðinn þar sem hann er lægstur því þeir heimsækja topplið Hauka á Ásvelli. Haukarnir hafa unnið sex af síðustu sjö leikjum sínum og töpuðu síðast fyrir rúmlega tveimur mánuðum.

Haukar töpuðu síðast á móti KA fyrir norðan 15. september en hafa frá þeim tíma náð í 13 stig af 14 mögulegum. Eyjamenn hafa spilað sjö leiki á þessum tíma og tapað fimm þeirra. Haukar hafa því fengið tíu fleiri stig en ÍBV á þessum síðustu tíu vikum.

Tapi Eyjamenn leiknum í kvöld verður þetta fjórða tap liðsins í röð. Leikjadagskráin hefur þó ekkert verið neitt lamb að leika sér við og ÍBV-liðið tapað þessum þremur leikjum með aðeins fimm mörkum samanlagt.

Þetta er fyrsti leikur liðanna síðan að ÍBV sópaði Haukaliðinu út úr úrslitakeppninni síðasta vor með því að vinna undanúrslitaeinvígi liðanna 3-0.

Eyjamenn unnu fjóra síðustu leiki liðanna á Íslandsmótinu í fyrra eða alla leiki liðanna nema þann fyrsta á Ásvöllum 17. september.

Leikir og stig lið Hauka og ÍBV frá 16. september 2018

Haukar 13 stig (6 sigurleikir, 1 jafntefli, 0 tapaleikir)

ÍBV  3 stig (1 sigurleikur, 1 jafntefli, 5 tapaleikir)

Síðustu sjö leikir Hauka í Olís deild karla:

5 marka sigur á Akureyri

6 marka sigur á Fram

9 marka sigur á Gróttu

4 marka sigur á Stjörnunni

Jafntefli við ÍR

4 marka sigur á Selfossi

2 marka sigur á Aftureldingu

Síðustu sjö leikir ÍBV í Olís deild karla:

4 marka tap fyrir ÍR

2 marka tap fyrir Selfossi

Jafntefli við Aftureldingu

7 marka sigur á Akureyri

2 marka sigur á Val

1 marks sigur á ÍBV

2 marka sigur á KA



Síðustu sex leikir Hauka og ÍBV á Íslandsmóti karla í handbolta

Deildarkeppnin 2017-18

Sun. 17. sep. 2017 Haukar - ÍBV        29-23 (12-12)

Sun. 10. des. 2017 ÍBV - Haukar        26-21 (13-10)

Úrslitakeppnin 2018

Þri. 24. apr. 2018 ÍBV - Haukar        24-22 (12-8)

Fim. 3. maí 2018 Haukar - ÍBV        22-25 (15-9

Lau. 5. maí 2018 ÍBV - Haukar        27-25 (12-11)

Sigrar ÍBV 4, +6

Sigrar Hauka 1, -6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×