Karl er elsta barn Elísabetar Bretadrottningar og eiginmanns hennar, Filippusar prins. Hann er því fyrstur í erfðaröð krúnunnar og verður Bretakonungur eftir dag móður sinnar. Hann verður sá elsti í sögu konungsveldisins til að taka við embætti þegar þar að kemur, en hann er þegar orðinn fimm árum eldri en Vilhjálmur fjórði Bretakonungur sem var krýndur konungur 64 ára gamall árið 1830.
Karl gegndi herþjónustu í fjölda ára og þá hefur hann einbeitt sér að góðgerðarmálum í gegnum tíðina, líkt og aðrir meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar. Hann hefur látið sig umhverfismál miklu varða, sem og „óhefðbundnar lækningar“ – sem hann hefur raunar sætt nokkurri gagnrýni fyrir.

Stormasamt hjónaband og stóra ástin
Kastljós fjölmiðla hefur þó einna helst beinst að fjölskyldulífi Karls, og þá einkum samböndum hans við Lafði Díönu Spencer og Camillu Parker-Bowles.Karl giftist lafði Díönu prinsessu árið 1981 og hún gerði sig í kjölfarið gildandi í hjörtum bresku þjóðarinnar. Þau eignuðust tvo syni, prinsana Vilhjálm, hertogann af Cambridge, og Harry, hertogann af Sussex.
Hjónaband Karls og Díönu var erfitt, líkt og fjallað hefur verið ítarlega um í bókum sem skrifaðar hafa verið um prinsessuna. Þau voru hvort öðru ótrú, raunar ítrekað, og árið 1996 skildu þau. Málið vakti hneykslan sem síðan vék fyrir sorg ári síðar þegar Díana lést í bílslysi í París.

Þegar skilnaður beggja hafði gengið í gegn lýsti Karl því loksins yfir að samband hans og Camillu væri „óumsemjanlegt“. Þau komu fyrst fram saman opinberlega árið 1999 og tilkynntu svo um trúlofun sína snemma árs 2005.

Einlæg ósk að Karl verði konungur
En hvað er nú á döfinni hjá Karli, sjötugum prinsinum? Móðir hans, Bretadrottning, er orðin 92 ára og óumflýjanlegar breytingar því í vændum. Síðustu misseri hefur enda orðið ákveðin svipting innan konungsfjölskyldunnar en Karl hefur hægt og rólega tekið yfir æ fleiri skyldur drottningarinnar – með hjálp annarra fjölskyldumeðlima. Árið 2017 mætti hann til að mynda á 546 viðburði fyrir hönd krúnunnar en Elísabet á 296.Það má þannig slá því föstu að heljarinnar tímamót séu í vændum í lífi Karls. Einhverjir hafa þó efast um að hann sé rétti maðurinn í embætti þjóðhöfðingans. Sjálf hefur Elísabet lýst því yfir að það sé „einlæg ósk“ hennar að sonurinn taki við af henni og Theresa May forsætisráðherra Bretlands tók í kjölfarið í sama streng. Framtíð Karls innan bresku krúnunnar virðist því ráðin.
Happy 70th birthday to HRH The Prince of Wales. pic.twitter.com/xmiPV4K7w4
— Clarence House (@ClarenceHouse) November 14, 2018