Erlent

Fox News lýsir yfir stuðningi við CNN

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump sakaði Jim Acosta, fréttamann CNN, um að vera dónalegan og hræðilega manneskju.
Donald Trump sakaði Jim Acosta, fréttamann CNN, um að vera dónalegan og hræðilega manneskju. Getty/The Asahi Shimbun
Bandaríska fréttastofan Fox News hefur lýst yfir stuðningi við CNN í baráttu þeirra við Donald Trump Bandaríkjaforseta, Sarah Sanders fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins og fleiri starfsmanna þess eftir að ákveðið var að svipta Jim Acosta, fréttamanni CNN, blaðamannapassa að Hvíta húsinu.

Á heimasíðu Fox  segir að Fox News styðji við bakið á ákvörðun CNN að stefna Hvíta húsinu í tilraun sinni til að endurheimta blaðamannapassa Acosta. Segir að Fox ætli sér að senda dómstólnum bréf til að útlista þá skoðun fréttastofunnar að ekki skuli beita blaðamannapössum sem vopni.

„Þó að við leggjum ekki blessun okkar yfir þann fjandsamlega tón bæði forsetans og fjölmiðla sem hefur verið áberandi að undanförnu, þá styðjum við frjálsa fjölmiðla, aðgang og opin samskipti, til handa bandarísku þjóðinni,“ er haft eftir Jay Wallace, forstjóra Fox News.

Trump hefur ítrekað sakað CNN og fleiri fjölmiðla um að flytja falsfréttir, en eftir því hefur verið tekið að Fox News virðist vera í náðinni hjá forsetanum.

Sagði Acosta hræðilega manneskju

Til deilna kom milli Trump og Acosta á blaðamannafundi í síðustu viku. Þar sakaði Trump Acosta meðal annars um að vera dónalegan og hræðilega manneskju. Þetta var eftir að Acosta spurði Trump út í Rússarannsóknina svokölluðu.

Að lokum sagði Trump að nú væri nóg komið og reyndi lærlingur í Hvíta húsinu þá að ná hljóðnemann af Acosta sem lét hann ekki af hendi. Daginn eftir birti Sarah Huckabee Sanders fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, myndband af því þegar Acosta neitaði að láta hljóðnemann af hendi og sakaði Acosta um „óviðeigandi hegðun“.

Myndbandinu sem Sanders birti hafði þó verið breytt svo að snertingin virtist alvarlegri en hún var, en því var fyrst dreift af ritstjórum Infowars, sem er í eigu samsæriskenningasmiðsins Alex Jones.

Stefna sex starfsmönnum

Þeir stefndu eru sex. Það eru Trump, John Kelly starfsmannastjóri Hvíta hússins, Sarah Huckabee Sanders upplýsingafulltrúi Trump, Bill Shine aðstoðaryfirmaður samskiptasviðs Hvíta hússins, Joseph Clancy yfirmaður lífvarðarsveitar forsetans og sá lífvörður forsetans sem tók aðgangskort Acosta. Ekki er búið að nafngreina þann síðastnefnda.


Tengdar fréttir

Hvíta húsið sakað um að dreifa breyttu myndbandi

Hvíta húsið hefur verið sakað um að dreifa myndbandi sem hefur verið breytt, til að réttlæta það að Jim Acosta, fréttamanni CNN, hafi verið meinað að mæta á fleiri blaðamannafundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×