Viðskipti innlent

Hannes hættir sem forstjóri Air Atlanta

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hannes Hilmarsson.
Hannes Hilmarsson.
Hannes Hilmarsson lætur af störfum sem forstjóri flugfélagsins Air Atlanta um áramótin. Hann tekur við sem stjórnarformaður Air Atlanta og forstjóri Northern Lights Leasing, systurfélags Air Atlanta sem heldur utan um flugvélaflotann, til þess að móta stefnu um endurnýjun flotans.

Hannes, sem hefur gegnt stöðu forstjóra Air Atlanta síðustu tólf ár, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið en breytingar á yfirstjórn flugfélagsins voru kynntar starfsmönnum í gær. Baldvin Már Hermannsson tekur við keflinu af Hannesi og verður forstjóri Air Atlanta en hann hefur verið framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs flugfélagsins í tíu ár.

Sigurður Magnús Sigurðsson verður framkvæmdastjóri rekstrarsviðs en hann snýr aftur til Air Atlanta eftir að hafa starfað sem framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air. Þá lætur Stefán Eyjólfsson af störfum sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og tekur við stöðu framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Northern Lights Leasing.

Hannes segir að kaflaskil séu í uppbyggingu Air Atlanta. „Stóra myndin er að reksturinn er á mjög góðum stað en fram undan er nýr kafli sem felur í sér að eigendur og æðstu stjórnendur leggi meiri áherslu á uppbygginguna en yngri stjórnendur taki við daglegum rekstri,“ segir hann. „Sem stjórnarformaður mun ég áfram hafa yfirsýn yfir reksturinn en áherslurnar færast yfir í að móta stefnu um flugvélaflotann.“

Í flugvélaflotanum eru tólf Boeing 747-400-vélar og ein Airbus-340-300-vél sem félagið rekur fyrir hönd Air Madagascar en sem áður segir er flotinn undir hatti systurfélagsins Northern Lights Leasing. Hannes segir að nýr kafli feli í sér endurnýjun flotans á komandi árum.

„Það er ekki aðkallandi að endurnýja flotann á þessu ári eða því næsta en við erum að horfa til þess að frá og með árinu 2020 byrji nýrri flugvélagerðir smám saman að koma í stað Boeing 747-vélanna. Endurnýjun á þessum skala krefst mikillar skipulagningar og fjárfestingar,“ segir Hannes.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×