Menning

Arkitektúr í baðmenningu á Íslandi

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Fulltrúar Basalts og Lavacenter með verðlaun sín.
Fulltrúar Basalts og Lavacenter með verðlaun sín. Sunday & White

„Við á Basalt arkitektum vinnum ávallt með hvert og eitt verkefni út frá eðli þess og staðsetningu. Okkar fyrsta verk er að fara á staðinn og kynna okkur staðhætti og menningarsögu viðkomandi staðar. Við leitum fanga í umhverfinu og náttúrunni hverju sinni,“ segir Sigríður Sigþórsdóttir hjá Basalt arkitektum sem tóku við Hönnunarverðlaunum Íslands 2018 fyrir arkitektúr í baðmenningu á Íslandi.

„Basalt arkitektar eru tilnefndir fyrir tvö verkefni, Sjóböðin á Húsavík og Retreat Hotel í Bláa lóninu. Þessi verkefni eru í raun mjög ólík að umfangi og allri umgjörð. Það sem þau eiga sameiginlegt er að við nýtum jarðvarmavatn til böðunar og slökunar,“ segir Sigríður sem segir staðsetninguna mjög áhugaverða.

Basalt arkitektar fá verðlaun fyrir tvö verkefni, Sjóböðin á Húsavík og Retreat Hotel í Bláa lóninu.

„Og sérstakt umhverfi sem við erum að byggja í báðum tilvikum og á sama tíma gjörólík. Við erum að umbreyta náttúru og nánasta umhverfi og leggjum áherslu á að það sé í sátt; í stað átaka verði til leikur sem eykur gæði staðarins; geri hann aðgengilegan og áhugaverðan. Við höfum að leiðarljósi að ekkert jafnast á við íslenska náttúru til að öðlast sálræna endurheimt svo ég vitni í Pál Líndal umhverfissálfræðing,“ segir Sigríður.

Í rökstuðningi dómnefndar eru Basalt arkitektar sagðir hafa einstakt lag á að tvinna mannvirki saman við náttúruna. Þeir hafi sýnt gott fordæmi þegar kemur að hönnun baðstaða. Byggingarlistin sé í hæsta gæðaflokki þar sem hvert smáatriði er úthugsað og rými hönnuð af virðingu og látleysi.

Bækur Angústúru útgáfu, hönnun Snæfríð Þorsteins og Hildigunnar.

Innsýn í ólíka menningarheima

Þrjú verkefni hlutu einnig viðurkenningu í gær. Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir tóku við viðurkenningu fyrir bækur í áskrift fyrir Angústúru forlag.

„Bækurnar eiga að gefa innsýn í ólíka menningarheima en á sama tíma vildum við halda í mínímalískt útlit,“ segir Snæfríð.

„Það var alveg ljóst frá upphafi að serían þyrfti heildarútlit fyrir bókaflokk sem ætti eftir að stækka. Útlitinu er ætlað að hvetja til lestrar og vekja forvitni,“ segir hún.

Björn bruggar áfengi úr ávöxtum úr matargámum og vinnur gegn matarsóun.

Bruggar áfengi úr ávöxtum

Þá tók við viðurkenningu Björn Steinar Blum­enstein sem bruggar áfengi úr ávöxtum sem hann sækir í ruslagáma matvöruverslana. Hann gefur fólki aðgang að hönnun eimingartækis til eigin brúks. 

„Catch of the day byrjaði sem rannsókn á hvernig ég gæti dregið úr matarsóun. Matarsóun er gríðarstórt vandamál á heimsvísu sem á sér stað af mörgum mismunandi ástæðum; vegna útlistgalla, skemmda eða sveiflna á markaði. 

Áfengir drykkir framleiddir úr aflögu ávöxtum framlengja líftímann óendanlega, því áfengi yfir 23% getur ekki runnið út. Hægt er að framleiða gæðavínanda úr öllum afurðum sem innihalda sykur, og því er vodka með ávaxtakeim tilvalin leið til að gefa ávöxtunum nýtt virði,“ segir Björn Steinar frá og segir Catch of the day nú vera að þróast í vöru tilbúna á markað.

Tvö fjölbýlishús í Hafnarfirði eru tengd saman með garði eftir PKdM arkitekta og þykja prýði.

Djarfur arkitektúr

PKdM arkitektar í samstarfi við Teiknistofuna Storð tóku við viðurkenningu fyrir Norðurbakka. Tvö fjölbýlishús, nálægt gömlu höfninni í Hafnarfirði. Garður tengir húsin tvö saman.

„Fjölbýlishúsin á Norðurbakka minna á skipin sem lágu við festar í Hafnarfjarðarhöfn undir lok síðustu aldar, bæði hvað varðar efnisval og form,“ segir í rökstuðningi dómnefndar. „Byggingarnar teygja sig til sjávar eins og tvö skip sem liggja við Hafnarfjarðarbryggju,“ segir Ferdinand hjá PKdM og segir húsin óð til sjávar.

Úr Bláa lóninu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×