Tíska og hönnun

Langskemmtilegast að vera al­veg sama

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Tískuskvísan Sofia Elsie er viðmælandi í Tískutali.
Tískuskvísan Sofia Elsie er viðmælandi í Tískutali. Aðsend

„Mér finnst þetta einfaldlega gera lífið litríkara og skemmtilegra,“ segir tískuskvísan og athafnakonan Sofia Elsie Nielsen sem skín skært hvert sem hún fer. Sofia ræddi við blaðamann um persónulegan stíl, tískuna, að læra að standa með sjálfi sér og margt fleira.

Sofia Elsie Nielsen er 26 ára gömul og Seltirningur í húð og hár. Hún er sjálfstætt starfandi fyrirtækjaeigandi og áhrifavaldur og er trúlofuð Sindra Má Friðrikssyni en þau eru bæði fædd árið 1999.

Sofia er alltaf smart.Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Það sem mér finnst skemmtilegast við tískuna er hvernig fólk getur tjáð sig í gegnum hana. Ég elska að sjá mismunandi stíla og fá innblástur frá öðrum til að nýta í minn stíl.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Það er erfitt að velja eina en ég er mikil yfirhafnakona, þannig að ég verð að segja síður pels sem ég fékk að gjöf frá unnusta mínum fyrir um átta árum. 

Hún er úr Gyllta kettinum og mér þykir ofboðslega vænt um hana. Ég er mjög hrifin af flíkum sem hafa gott notagildi og endast vel.

Pelsinn er í miklu uppáhaldi.Aðsend

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Nei, ég eyði ekki miklum tíma í að velja fötin vegna þess að ég reyni að skipuleggja fram í tímann í hverju ég ætla að vera fyrir hvert tilefni, hugsa sérstaklega um næstu outfit áður en ég fer að sofa. 

Ég er oft komin með alls kyns mismunandi hugmyndir að klæðaburði í huganum þegar kemur að hverju tilefni fyrir sig.

Sofia Elsie er oft með hugann við skemmtilegar samsetningar á klæðaburði.Aðsend

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Ég vel alltaf þægindi og vil að mér líði vel í því sem ég klæðist. Ég elska líka að klæðast ljósum litum finnst það fara mér best, er ekki mikið fyrir að klæðast dökku.

Sofia sækir mikið í ljósa liti.Aðsend

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Já klárlega, áður fyrr var ég mikið að elta öll trend en í dag tek ég innblástur frá því sem mér finnst flott og geri það að mínu. 

Ég hef alltaf haft ótrúlega gaman af tísku og að klæða mig en held að ég sé loksins búin að finna minn stíl.

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Já klárlega! Mér finnst ekkert skemmtilegra en að vera ánægð með fittið mitt. 

Það gerir mikið fyrir mína andlegu heilsu og mér finnst það einfaldlega gera lífið litríkara og skemmtilegra.
Sofia elskar að klæða sig upp.Aðsend

Hvað skiptir þig mestu máli í klæðaburði?

Mér finnst skipta öllu máli að líða vel í því sem ég klæðist!

Vellíðan er aðal tískuráðið!Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Ég fæ mikinn innblástur af TikTok og Pinterest en síðastliðið ár hef ég fengið mestan innblástur á ferðalögum erlendis. 

Mér hefur fundist svo gaman að sjá hvernig fólk í mismunandi borgum klæðir sig og reyni að yfirfæra það sem mér finnst flott yfir í minn stíl.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Nei eiginlega ekki. 

Ég á þó smá erfitt með þegar einhver ein flík verður mjög vinsæl og allir eiga hana, þá langar mig einmitt ekki að eiga hana.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Dettur strax í hug kjóll sem ég keypti á fimmtán evrur á markaði á Marbella á Spáni í sumar. Við vinkonurnar keyptum okkur kjóla í sama stíl og vorum í þeim um kvöldið. 

Mér leið svo vel í honum og fékk mikið af spurningum um hann.

Kjóllinn er glæsilegur og í miklu uppáhaldi hjá Sofiu.Aðsend

Hvað finnst þér heitast fyrir veturinn?

Allir aukahlutir til þess að poppa upp outfitið, hvort sem það eru lyklakippur, belti, klútar, pils yfir buxur, skemmtilegir skartgripir eða töff sokkabuxur!

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Að þora að vera þú sjálf, klæða þig nákvæmlega eins og þú vilt og vera alveg sama hvað öðrum finnst. 

Ég hef alltaf reynt að hafa það á bak við eyrað en eins og staðan er í dag þá gæti mér ekki verið meira sama um hvað öðrum finnst um klæðaburðinn minn. 

Nema kannski litla systir mín, ég hlusta stundum á hana!





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.