Erlent

Íranir vara við stríðsástandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá loftvarnaræfingu íranska hersins.
Frá loftvarnaræfingu íranska hersins. AP/Her Íran
Yfirvöld Íran héldu heræfingar í dag og Hassan Rouhani, forseti, varaði við því að ríkið stæði nú í stríðsástandi. Bandaríkin beittu Íran umfangsmiklum viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum sem tóku í dag. Flestar þeirra höfðu verið felldar niður í kjölfar kjarnorkusamkomulagsins svokallaða en eftir Donald Trump dró Bandaríkin frá samkomulaginu hefur staðið til að beita þvingununum á nýjan leik.

Nýju aðgerðirnar beinast að miklu leyti gegn olíuiðnaði Íran en minnst átta ríki hafa fengið undanþágu gegn þvingununum og munu áfram kaupa olíu af ríkinu. Þar að auki beinast aðgerðirnar gegn flutningum og bankakerfi Íran.



Bandaríkin saka Íran um að styðja vígahópa fjárhagslega og grafa undan öðrum ríkjum. Mike Pompeo, utanríkisráðherra, sagði í dag að Íran þyrfti að haga sér eins og eðlilegt ríki, eða horfa upp á hrun efnahags ríkisins.



Hann sagði minnst tuttugu ríki hafa þegar hætt að kaupa olíu af Íran og að útflutningur þaðan hefði dregist saman um milljón tunnur á dag.

Rouhani hét því í dag að Íran ætlaði að brjóta gegn aðgerðum Bandaríkjanna. Þeir myndu áfram selja olíu og yfirvöld Kína hafa þar að auki sagt að þeir muni ekki fylgja þvingununum.

Trump segir markmið þessarar aðgerða að fá yfirvöld Íran aftur að samningaborðinu. Hann sagði að kjarnorkusamkomulagið áðurnefnda hefði verið versta samkomulag sögunnar. Samkvæmt því átti Íran að hætta þróun kjarnorkuvopna í staðinn fyrir niðurfellingar refsiaðgerða.

Kjarnorkustofnunin segir Íran hafa verið að fylgja samkomulaginu þegar Trump dró Bandaríkin frá því.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×