Erlent

Hné niður í þingsal er hún frétti af morðinu á dóttur sinni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hlé var gert á þingstörfum og kallað eftir lækni þegar Medel hneig niður.
Hlé var gert á þingstörfum og kallað eftir lækni þegar Medel hneig niður. Mynd/Skjáskot
Mexíkóska þingkonan Carmen Medel var við störf í þingsal nýverið er henni voru fluttar fréttir af því að dóttir hennar hefði verið myrt.

Hlé var gert á þingstörfum og kallað eftir lækni þegar Medel hné niður í fang samstarfskonu sinnar eftir að hún fékk fréttirnar. Í umfjöllun BBC segir að dóttir Medel, Valeria, hafi verið skotin til bana í líkamsræktarstöð í borginni Ciudad Mendoza. Valeria var 22 ára námsmaður.

Upptökuvélar í þingsal náðu hinu átakanlega atviki á myndband en í myndbandinu sést Medel hrópa upp yfir sig harmi slegin. Í frétt Daily Mail segir að þingfundi hafi í kjölfarið verið frestað. Myndband BBC um málið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Tveir menn hafa verið handteknir í tengslum við morðið á Valeriu. Talið er að meintur byssumaður, sem síðar fannst látinn, hafi farið mannavillt og ætlað að beina vopni sínu að konu sem svipar til Valeriu. Sú er kærasta manns sem sagður er meðlimur í glæpagengi á svæðinu.

Morðtíðni er afar há í Mexíkó. Það sem af er ári hafa yfir 21 þúsund morð verið framin, sem er nær 20% aukning milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×