Innlent

Í gæsluvarðhald grunaður um á þriðja tug brota

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Landsréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms.
Landsréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Karlmaður sem grunaður er um á þriðja tug auðgunar- og umferðalagabrota hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. nóvember. Lögreglan telur manninn hafa einbeittan brotavilja enda virðist vera „lítið lát á brotastarfsemi hans.“

Maðurinn var handtekinn 24. október í tengslum við rannsókn á innbrotum í tvær verslanir en hann er grunaður um að hafa í félagi við annan mann brotist inn í verslanirnar og stolið þaðan talsverðu magni af sígarettupökkum.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manninum kemur einnig fram að maðurinn sé grunaður um fjölda annarra brota, meðal annars er hann grunaður um að hafa brotist inn í nokkrar bifreiðar og stolið þaðan sólgleraugum, smámynt og dælulyklu auk þess sem hann er grunaður um fjölda umferðarlagabrota, meðal annars að hafa ítrekað ekið bíl undir áhrifum amfetamíns.

Í greinargerð lögreglu segir að brotin sem maðurinn er grunaður um séu margítrekuð og framin á stuttum tíma, eða á tæpu einu ári. Þá eigi maðurinn að baki nokkurn sakaferil og hafi margítrekað verið dæmdur fyrir augðunar- og umferðarlagabrot.

„Í ljósi framangreinds telji lögreglustjóri einnig ljóst að kærði hafi einbeittan brotavilja enda virðist lítið lát á brotastarfsemi hans,“ að því er segir í greinargerðinni. Sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði haldi áfram brotastarfsemi gangi hann frjáls ferða sinna og var því farið fram á gæsluvarðhald yfir manninum.

Héraðsdómur Reykjavíkur tók undir þetta mat og úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald enLandsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms.Þarf maðurinn því að sæta gæsluvarðhaldi til 20. nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×