Erlent

Trump segir skýringar Sáda á dauða Khashoggi trúverðugar

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Getty/Scott Olson
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi í gær að Bandaríkjamenn myndu áfram fylgjast með þróun mála vegna dauða Jamal Khashoggi en ríkissjónvarp Sádi-arabíu staðfesti andlát hans í gær. Átján Sádar hafa verið handteknir vegna málsins.

Sjá einnig: Sádar staðfesta andlát Khashoggi

Skýringar ríkissjónvarpsins þar í landi voru þær að Khashoggi hafi lent í áflogum við þá sem hann hafði haldið til fundar við inni á skrifstofunni með þeim afleiðingum að hann lést. Lögregluyfirvöld í Tyrklandi halda því þó fram hann hafi verið myrtur þar inni og lík hans bútað í sundur og segja fjölmiðlar í landinu að til sé hljóðupptaka af morðinu sem sanni málflutning þeirra.

Á blaðamannafundinum í gær sagði Trump skýringar Sádi-araba vera trúverðugar og handtaka mannanna væri „gott fyrsta skref“ í málinu. 

„Við sjáum hvað gerist, við gætum haft einhverjar spurningar og við höfum jú einhverjar spurningar.“

Viðbrögð við dauða Khashoggi hafa vakið hörð viðbrögð á meðal þingmanna Demókrata og Repúblikana og krefjast margir hverjir að málið verði rannsakað til hlítar á alþjóðavettvangi. Þingmaður Demókrata, Richard Blumenthal, segir yfirvöld í Sádí-arabíu vera að kaupa sér tíma með yfirlýsingu ríkissjónvarpsins varðandi dauða blaðamannsins og hún setji fram fleiri spurningar en svör. 

Þá sagði Trump að hann myndi halda áfram viðræðum við yfirvöld í Sádi-Arabíu og krefjast svara við ósvöruðum spurningum í kringum andlát blaðamannsins. Hann myndi síðan ákveða næstu skref í samráði við þingið.


Tengdar fréttir

Sádar staðfesta andlát Khashoggi

Ríkissjónvarp Sádí Arabíu hefur staðfest að blaðamaðurinn Jamal Khashoggi er látinn. Khashoggi hvarf fyrr í mánuðinum en hann sást síðast ganga inn í ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl í Tyrklandi og hafa Tyrkir haldið því fram að hann hafi verið myrtur þar inni og lík hans bútað í sundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×