Viðskipti innlent

Gildi í hóp stærstu hluthafa Arion

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis - lífeyrissjóðs
Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis - lífeyrissjóðs Fréttablaðið/GVA
Gildi - lífeyrissjóður hefur keypt liðlega 1,2 prósenta eignarhlut í Arion banka og fer nú með um 1,8 prósenta hlut í bankanum. Er hlutur lífeyrissjóðsins metinn á ríflega 2,8 milljarða króna miðað við núverandi gengi bréfa bankans.

Lífeyrissjóðurinn átti 0,65 prósenta hlut í Arion banka í kjölfar hlutafjárútboðs bankans í júní síðastliðnum, að því er fram hefur komið í Markaðinum. Sjóðurinn bætti nýverið við hlut sinn og er nú áttundi stærsti hluthafi bankans.

Breski vogunarsjóðurinn Attestor Capital seldi fyrr í mánuðinum hátt í 1,3 prósenta eignarhlut í Arion banka og á nú 7,33 prósenta hlut í bankanum, samkvæmt nýjasta uppfærða hluthafalista hans, dagsettum 16. október. Vogunarsjóðurinn hefur nú selt um 2,1 prósent af hlutafé bankans eftir að bankinn var skráður á hlutabréfamarkað í júní og yfir 5 prósenta hlut frá því í vor. Eins og greint var frá í Markaðinum í síðustu viku hafa sjóðir á vegum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins aukið lítillega við hlut sinn í bankanum í haust en þeir fara nú með samanlagt 1,78 prósenta hlut.

Gengi hlutabréfa í Arion banka stóð í 78,7 krónum eftir lokun markaða í gær og er tæplega átta prósentum hærra en útboðsgengi bréfanna þegar bankinn var skráður á markað. Bréfin hafa lækkað um níu prósent í verði undafarinn mánuð.




Tengdar fréttir

Vildi rannsaka sölu Arion í Bakkavör

Meirihluti stjórnar Arion banka hafnaði tillögu fulltrúa Bankasýslu ríkisins um að sala bankans á hlut sínum í Bakkavör yrði rannsökuð. Tillaga þáverandi varaformanns stjórnar bankans svipaðs efnis var einnig felld. Bankasýslan segir sömu spurningar hafa vaknað við söluna og í Borgunarmálinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×