Viðskipti innlent

Jóhanna Vigdís nýr framkvæmdastjóri Almannaróms

Atli Ísleifsson skrifar
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir.
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir. Mynd/Almannarómur
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Almannaróms, miðstöðvar um máltækni.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að Jóhanna Vigdís hafi að undanförnu starfað sem framkvæmdastjóri atvinnu- og alþjóðatengsla hjá Háskólanum í Reykjavík og staðið fyrir uppbyggingu atvinnulífstengsla HR. Áður hafi hún verið forstöðumaður markaðssviðs HR. Jóhanna Vigdís hefur jafnframt gegnt stjórnendastöðum við Listahátíð í Reykjavík, hjá Straumi fjárfestingarbanka, Deloitte og Borgarleikhúsinu. 

„Að Almannarómi standa háskóla- og rannsóknastofnanir, fyrirtæki og félagasamtök. Meginhlutverk Almannaróms er að tryggja að íslenska standi jafnfætis öðrum tungumálum í hinu stafræna umhverfi og mun framkvæmdastjóri meðal annars bera ábyrgð á gerð samninga við stærstu tæknifyrirtæki heims og úthlutun fjármagns til rannsókna og innviðauppbyggingar á sviði máltækni,“ segir í tilkynningunni.

Jóhanna Vigdís lauk AMP gráðu hjá IESE Business School í Barcelóna árið 2015, MBA námi frá HR 2005 og meistaraprófi frá Háskólanum í Edinborg árið 2003. Jóhanna Vigdís útskrifaðist með BA gráðu í bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1998.

Jóhanna Vigdís er gift Riaan Dreyer og saman eiga þau fjögur börn.

Sjálfseignarstofnun

Almannarómur er sjálfseignarstofnun um eflingu máltæknilausna fyrir íslensku og vinnur að því að tryggja að íslenskan standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheiminum.

Stofnunin rekur miðstöð um máltækni samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið sem byggður er á verkáætlun um máltækni 2018-2022.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×