Erlent

Trump kennir fjölmiðlum um reiði í skugga bréfsprengna

Kjartan Kjartansson skrifar
Í fyrstu virtist Trump forseti ætla að milda tón sinn í garð fjölmiðla eftir að bréfsprengjur voru sendar andstæðingum hans. Hann var hins vegar fljótt kominn við sama heygarðshornið aftur.
Í fyrstu virtist Trump forseti ætla að milda tón sinn í garð fjölmiðla eftir að bréfsprengjur voru sendar andstæðingum hans. Hann var hins vegar fljótt kominn við sama heygarðshornið aftur. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt áfram að reyna að kenna fjölmiðlum um að hafa skapað reiði í samfélaginu í tengslum við bréfsprengjur sem hafa verið sendar pólitískum andstæðingum hans síðustu daga. Fjölmiðlafyrirtæki er á meðal þeirra sem fékk senda sprengju frá óþekktum sendanda.

Aukin athygli hefur færst á hatramma orðræðu Trump í garð fjölmiðla og mótherja sinna í stjórnmálum í kjölfar þess að leyniþjónusta Bandaríkjanna stöðvaði bréfsprengjur sem stílaðar voru á Barack Obama, fyrrverandi forseta, Clinton-hjónin og fleira áberandi demókrata. Hefur Trump verið sakaður um að hafa kynt undir ofsa í samfélaginu með fúkyrðum og samsæriskenningum um andstæðinga sína.

Í morgun bárust fréttir af því að veitingastað leikarans Roberts de Niro, sem hefur verið gagnrýninn á Trump, hafi borist möguleg sprengja og Joe Biden, fyrrverandi varaforseta sem hefur verið orðaður við forsetaframboð 2020, sömuleiðis. Mögulegar sprengjur eru því alls níu fram að þessu. Ætlaðir viðtakendur þeirra eiga það sameiginlegt að hafa verið gagnrýnir á Trump og forsetinn hefur ráðist að þeim í ræðu og riti.

Trump virtist reyna að lýsa áhyggjum af sprengjusendingunum í gær og sagði að slíkt ætti ekki heima í bandarísku samfélagi. Á kosningafundi með stuðningsmönnum sínum í gærkvöldi tók forsetinn hins vegar aftur upp gagnrýni sína á fjölmiðla. Sagði hann þá ábyrga fyrir að slá kurteisislegan tón í opinbera umræðu og stöðva „endalausan fjandskap“ með „stöðugri neikvæði“ og „fölskum fréttum“.

Forsetinn hjó í sama knérunn á Twitter í morgun þar sem hann leitaðist enn við að koma ábyrgðinni á núverandi aðstæðum í bandarísku samfélagi yfir á fjölmiðla.

„Mjög stór hluti af [r]eiðinni sem við sjáum í dag í samfélaginu er af völdum viljandi falsks og ónákvæms fréttaflutnings meginstraumsfjölmiðla sem ég vísa til sem falsfrétta. Þetta er orðið svo slæmt og hatursfullt að það er ólýsanlegt. Meginstraumsfjölmiðlar verða að taka sig saman í andlitinu, HRATT!“ tísti forsetinn.

Hann hefur þó verið gagnrýndur fyrir hræsni og þykir ýmsum holur hljómur í orðum forsetans, bæði þegar hann fordæmir árásir á pólitíska andstæðinga og segir fjölmiðla ábyrga fyrir því umræður fari fram á kurteisislegum nótum.

Aðeins vika er liðin frá því að Trump kallaði fyrrverandi klámmyndaleikkonu sem segist hafa átt í kynferðislegu sambandi við hann „hestsfés“ á Twitter. Þá hefur hann ítrekað kallað fjölmiðla „þjóðníðinga“ og sakað pólitíska andstæðinga sína um að vera „heimska“, „lygara“, „mjög óheiðarlegt fólk“ og margt fleira miður fagurt.


Tengdar fréttir

Voveiflegir atburðir í Bandaríkjunum

Bréfsprengjur hafa í vikunni verið sendar á áhrifamenn innan bandaríska vinstrisins og á fréttastofu CNN. Trump forseti ítrekað gagnrýnt skotmörkin. Forsetinn fordæmdi árásina harðlega og sagði hana svívirðilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×