Þá segir forsetinn að umfjöllun fjölmiðla um sprengjurnar hafi dregið úr gengi Repúblikana í aðdraganda kosninga í næsta mánuði og að fjölmiðlar séu ósanngjarnir við Repúblikana.
Cesar Sayoc, maðurinn sem hefur verið ákærður fyrir að senda sprengjurnar, skildi fingraför og lífsýni eftir á einum pakkanum og býr rétt hjá pósthúsinu sem hann notaði til að senda pakkana. Hann var handtekinn í dag.
Sjá einnig: Hinn grunaði á langan sakaferil að baki
Sayoc virðist hafa verið harður stuðningsmaður Trump frá því áður en hann bauð sig fram til forseta. Í maí 2015 tilkynnti Sayoc að þjófar hefðu stolið af honum og þar með talið Trump varningi fyrir þúsundir dali. Trump tilkynnti framboð sitt í júní 2015.
Trump ræddi við blaðamenn í dag þar sem hann hrósaði löggæslumönnum Bandaríkjanna sem gómuðu Sayoc. Þá sagði hann einnig að hann bæri enga ábyrgð á aðgerðum Sayoc og talaði um að umfjöllunin um sendingarnar, sem hann sagði vera réttmæta, hefði komið niður á Repúblikanaflokknum.
Hann sagði einnig að fjölmiðlar væru „ótrúlega ósanngjarnir“ gagnvart sér og Repúblikönum en hann svaraði ekki spurningu um á hvaða hátt fjölmiðlar væru ósanngjarnir. Þá sagði Trump að hann hefði dregið úr kosningaáróðri sínum.
Trump gaf sjálfur í skyn í dag að árásirnar væru gabb þegar hann setti gæsalappir utan um orðið sprengja í tísti. Það leiddi til þess að yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna, sem Trump skipaði í embætti, þurfti að staðhæfa á blaðamannafundi í dag að þetta væri ekki gabb. Sprengjurnar hefðu verið raunverulegar.
Hér má sjá myndband frá blaðamannafundi í dag þar sem Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, og Christopher Wray ræddu stöðuna í kjölfar handtöku Sayoc.