Hópur um þrjú hundruð manna stefna nú í átt að Bandaríkjunum eftir að hafa lagt af stað gangandi frá El Salvador í dag. Hópurinn lagði af stað frá höfuðborginni San Salvador.
Salvadorarnir skipulögðu ferðina á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Whatsapp. Erlendir fjölmiðlar segja að fólkið hafi gengið í fylgd lögreglumanna, þar sem það bar bakpoka og vatnsflöskur. Sumir voru með börn í barnavögnum.
Þúsundir manna hafa gengið í norðurátt í Mið-Ameríku, með stefnu á Bandaríkin, það sem af er mánuðinum. Straumur fólksins hefur vakið mikla athygli í álfunni og víðar og hefur verið eitt af helstu kosningamálunum í Bandaríkjunum þar sem kosið verður til þings í byrjun næsta mánaðar.
Í síðustu viku lagði af stað hópur, sem taldi um þúsund manns, frá Hondúras og um Gvatemala áður en hann tvístraðist. Fólkið er nú í Mexíkó og á enn um 1.600 kílómetra eftir þar til að það nær bandarísku landamærunum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað að því að draga úr fjárhagsaðstoð til stjórnvalda í Hondúras, Gvatemala og El Salvador, verði fólkið ekki stöðvað á leið sinni.
