Innlent

Grunaður um fíkniefnaakstur með níu ára son sinn í bílnum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla hefur haft í nógu að snúast í dag.
Lögregla hefur haft í nógu að snúast í dag. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karlmann í miðbæ Reykjavíkur á fimmta tímanum í dag vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Níu ára gamall sonur ökumannsins var farþegi í bifreiðinni og var haft samband við barnavernd í kjölfarið. Maðurinn var frjáls ferða sinna að lokinni blóðsýna- og skýrslutöku. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögregla hefur haft í nógu að snúast í dag en klukkan 15:22 var óskað eftir aðstoð lögreglu og slökkviliðs vegna elds sem hafði kviknað í húsnæði á Seltjarnarnesi. Búið var að slökkva eldinn þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Ekki liggja fyrir upplýsingar um eldsupptök eða skemmdir en tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sér um vettvangsrannsókn.

Skömmu eftir hádegi barst lögreglu tilkynning um karlmann sem hafði verið að stela varningi úr verslun í hverfi 108. Lögregla fór á vettvang og var karlmaðurinn handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Var hann frjáls ferða sinna að lokinni skýrslutöku.

Þá var lögreglu á stöð 4, sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Grafarholti, Árbæ og Mosfellsbæ, í þrígang tilkynnt um ungmenni sem höfðu verið að stela varningi úr verslun í hverfi 112 í dag. Í öllum tilvikum var haft samband við forráðamann ungmennisins auk þess sem að barnavernd var tilkynnt um málið.

Skömmu eftir klukkan 16 var tilkynnt um að ekið hefði verið á reiðhjólamann í hverfi 110. Talið var að um minniháttar slys væri að ræða en ekki liggja fyrir upplýsingar um meiðsl viðkomandi.

Lögregla handtók einnig tvo ökumenn til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu í dag en þeir óku báðir án ökuréttinda. Um klukkan hálf 3 var tilkynnt um þjófnað á ökutæki í hverfi 109 og klukkutíma síðar var svo tilkynnt um þjófnað úr verslun í hverfi 220.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×